Körfubolti

„Á­hyggju­efni fyrir Njarð­vík“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dominykas Milka og félagar í Njarðvík fengu slæman skell í síðasta leik.
Dominykas Milka og félagar í Njarðvík fengu slæman skell í síðasta leik. Vísir/Diego

Njarðvíkingar eru að berjast um deildarmeistaratitilinn í Subway deild karla í körfubolta en þeir litu ekki út fyrir að vera í toppbaráttulið í síðasta leik sínum.

Subway Körfuboltakvöld ræddi Njarðvíkurliðið og stóra skellinn sem liðið fékk á móti Grindvíkingum í sextándu umferðinni.

„Það sem ég tek út úr þessum leik er áhyggjuefni fyrir Njarðvík. Ég veit að þeir eru í öðru sæti og eru búnir að spila mjög vel. Flott en að tapa með fjörutíu stigum á þessum tímapunkti tímabilsins. Fyrir liði sem ætlar að láta taka sig alvarlega,“ sagði Helgi Már Magnússon, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Álftanes tapaði svona í síðustu umferð, ég geri mér grein fyrir því en þar voru menn að koma úr meiðslum og alls konar afsakanir sem maður getur keypt eða ekki. Njarðvík. Að tapa með fjörutíu stigum þegar það eru sex leikir eftir af deildarkeppninni,“ sagði Helgi.

„Þetta er eitthvað sem á bara að gerast fyrir jól þegar þú ert ekki í sinki en að láta flengja sig svona. Þeir gáfu eftir. Leyfðu þeim að valta yfir sig,“ sagði Helgi.

„Þeir lögðust bara niður á fimmtu mínútu í fyrsta leikhluta. Það sem ég saknaði mest við þetta var að það var enginn barningur eða ‚fight' í þeim. Glatað að tapa með fjörutíu stigum en að láta flengja sig í leiðinni, andlega, líkamlega og allt,“ sagði Matthías Orri Sigurðarson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

Körfuboltakvöld ræddi líka þegar upp úr sauð á milli Njarðvíkingum Chaz Williams og Grindvíkingnum Deandre Kane. Það má sjá alla umræðuna hér fyrir neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld: Áhyggjuefni fyrir Njarðvík



Fleiri fréttir

Sjá meira


×