Sport

Skáru niður styttu af goð­sögn, brenndu og hentu í rusla­tunnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta er það sem er eftir af styttu Jackie Robinson í Wichita.
Þetta er það sem er eftir af styttu Jackie Robinson í Wichita. AP/Travis Heying

Styttan af bandarísku hafnaboltagoðsögninni Jackie Robinson fékk ekki að vera í friði því hún var skorin niður og eyðilögð.

Styttan var í Wichita Park í Kansas fylki. Nokkrum klukkutímum seinna fannst hún brunnin og í slæmu ástandi í ruslatunnu. Miðlar eins og New York Times og The Athletic segja frá þessu.

Það eina sem er eftir, á staðnum þar sem styttan stóð, eru skór Jackie Robinson.

Svona leit styttan út.AP(Mel Gregory

„Það er líklegast ekki hægt að laga hana,“ sagði Andrew Ford, upplýsingafulltrúi lögreglunnar í Wichita, við The Athletic. Lögreglan og slökkviliðið rannsaka atvikið.

Robinson er fyrsti blökkumaðurinn sem spilaði í bandarísku hafnaboltadeildinni og með því braut hann niður múra. Áður en hann fékk samning hjá Brooklyn Dodgers þá þurftu blökkumenn að spila í sérdeild.

Árið 1962 var Robinson tekinn inn í Heiðurshöllina og hans er einnig minnst með Jackie Robinson deginum á hverju ári.

Styttan var sett upp árið 2021 í Wichita. Borgarfulltrúinn Brandon Johnson sagði í viðtali við The Athletic að þetta væru harmþrungnar og sorglegar fréttir en hann lofaði að ný stytta yrði sett upp fljótlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×