Fótbolti

Malí og Suður-Afríka tryggðu sér sæti í átta liða úr­slitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Evidence Makgopa skoraði fyrra mark Suður-Afríku í kvöld.
Evidence Makgopa skoraði fyrra mark Suður-Afríku í kvöld. Ulrik Pedersen/DeFodi Images via Getty Images

Malí og Suður-Afríka tryggðu sér í kvöld sæi í átta liða úrslitum Afríkukeppninnar í fótbolta. Suður-Afríka lagði Marokkó 2-0 og Malí vann 2-1 sigur gegn Búrkína Fasó.

Marokkómenn byrjuðu betur gegn Suður-Afríku og Abde Ezzalzouli hélt að hann hefði komið liðinu yfir á 33. mínútu, en markið dæmt af vegna rangstöðu og staðan því enn 0-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Evidence Makgopa kom Suður-Afríkumönnum svo yfir með marki á 57. mínútu. Marokkó fékk gullið tækifæri til að jafna metin þegar um fimm mínútu voru til leiksloka er liðið fékk vítaspyrnu. Achraf Hakimi fór á punktinn en setti boltann í slána og Suður-Afríka því enn með forystuna fyrir lokamínútur leiksins.

Sofian Amrabat bætti svo gráu ofan á svart fyrir Marokkó þegar hann nældi sér í beint rautt spjald á annarri mínútu uppbótartíma. Suður-Afríkumennirnir voru ekki lengi að nýta sér liðsmuninn og Teboho Mokoena tryggði liðinu 2-0 sigur á fimmtu mínútu uppbótartíma.

Suður-Afríka er því á leið í átta liða úrslit þar sem liðið mætir Grænhöfðaeyjum.

Þá tryggði Malí sér einnig sæti í átta liða úrslitum í kvöld er liðið vann 2-1 sigur gegn Búrkína Fasó. Liðið komst yfir strax á þriðju mínútu þegar Edmond Tapsoba varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net áður en Lassine Sinayoko tvöfaldaði forystu Malí snemma í síðari hálfleik.

Bertrand Traore, leikmaður Aston Villa, minnkaði muninn fyrir Búrkína Fasó á 57. mínútu með marki úr vítaspyrnu, en þrátt fyrir góð færi tókst liðinu ekki að jafna og niðurstaðan varð 2-1 sigur Malí.

Malí fylgir þar með Suður-Afríku í átta liða úrslit þar sem liðið mætir Fílabeinsströndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×