Fótbolti

Læri­sveinar Freys nældu í ó­trú­legt stig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kortrijk hefur ekki tapað leik síðan Freyr tók við liðinu,
Kortrijk hefur ekki tapað leik síðan Freyr tók við liðinu, @KVKOFFICIEEL

Freyr Alexandersson og lærisveinar hans í Kortrijk nældu sér í ótrúlegt stig er liðið heimsótti Club Brugge í belgísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Freyr hefur byrjað tíma sinn hjá botnliði Kortrijk vel og hafði liðið unnið einn leik og gert eitt jafntefli undir hans stjórn.

Það voru þó heimamenn í Club Brugge sem byrjuðu leik kvöldsins betur og Philip Zinckernagel kom liðinu yfir strax á 16. mínútu. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins og staðan því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Jonathan Afolabi jafnaði þó metin fyrir gestina snemma í seinni hálfleik áður en Massimo Bruno kom liðinu yfir á 68. mínútu. 

Brandon Mechele jafnaði hins vegar metin á ný fyrir Club Brugge á 78. mínútu og Igor Thiago virtist vera að tryggja heimamönnum sigur með marki þegar rétt um fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Lærisveinar Freys gáfust þó ekki upp og Djibi Seck bjargaði stigi fyrir gestina með marki á sjöundu mínútu uppbótartíma. Niðurstaðan varð því ótrúlegt 3-3 jafntefli og gott gengi Kortrijk undir stjórn Freys heldur áfram.

Þrátt fyrir stigin fimm í síðustu þremur leikjum situr Kortrijk enn á botni belgísku deildarinnar, nú með 15 stig eftir 23 leiki. Club Brugge situr hins vegar í þriðja sæti með 41 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×