Fréttastofu hefur meðal annars borist ábendingar frá vegfarendum á Reykjanesbrautinni. Þar er bylur og lítið sem ekkert skyggni. Veðurstofan segir kyrrstæð lægð á Grænlandshafi dæla til landsins éljalofti úr suðvestri í dag.
Lúðvík Kristinsson, varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir aðstæður hættulegar. Lögreglu hafi hingað til borist örfáar tilkynningar um árekstra.
„En það er bara þreifandi bylur og ekkert skyggni. Þetta er stórhættuleg veðurskilyrði. Þannig ökumenn þurfa að fara mjög varlega. Lítið ferðaverður. Fólk er dólandi hérna bara á 20-30 á götum. Það er ekkert skyggni.“
Gular viðvaranir
Veðurstofan uppfærði fyrir skemmstu vef sinn. Nú hefur verið gefin út gul veðurviðvörun á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og á Faxaflóa.
Segir að um sé að ræða suðvestan 18-23 metrar á sekúndu og éljagang, sem standi stutt yfir. Fólk er hvatt til að sýna aðgát. Viðvaranirnar gilda til 12:00 á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi, en til klukkan 13:00 á Faxaflóa.