Erlent

Sádi-Arabar opna fyrstu á­fengis­verslunina í sjö­tíu ár

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Verslunin verður í höfuðborginni Riyadh. 
Verslunin verður í höfuðborginni Riyadh.  EPA

Til stendur að opna fyrstu áfengisverslunina í Sádi-Arabíu í meira en sjötíu ár. Þar mun diplómötum sem ekki eru múslimar standa til boða að versla sér áfengi í hóflegu magni. 

Sádi-arabísk yfirvöld segja verslunina munu koma í veg fyrir ólöglega flutninga áfengis inn í landið. Diplómatar eru sagðir hafa lengi staðið fyrir slíkum flutningum, heimamönnum til ama. 

Áfengisneysla hefur verið ólögleg í Sádi-Arabíu frá árinu 1952, þegar einn sona Abdulaziz konungs skaut breskan diplómat til bana þegar hann var drukkinn. 

Nýja áfengisverslunin verður staðsett í sérstöku diplómatahverfi í höfuðborginni Riyadh þar sem sendiráð eru staðsett og diplómatar búsettir. Einungis þeim sem ekki eru múslimatrúaðir mun bjóðast að versla við áfengisverslunina. Ekki liggur fyrir hvort öðrum en diplómötum mun bjóðast að versla þar.

Kaupendum verður einnig gert að versla ekki áfengi umfram tilsettan mánaðarlegan kvóta. 

Viðskiptavinir munu þurfa að skrá sig inn á forrit og fá leyfi hjá utanríkisráðuneyti Sádi-Arabíu ætli þeir að versla við búðina, samkvæmt heimildum Reuters.

Opnun verslunarinnar er sögð stórt skref í átt að aukinni ferðamennsku og viðskiptum í landinu. Þá er hún hluti af Saudi Vision 2030 áætluninni, en í henni felst þróun í átt að félagslegri, efnahagslegri og menningarlegri fjölbreytni.

Reuters hefur eftir heimildum að verslunin opni á næstu vikum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×