Handbolti

Ó­trú­legur enda­sprettur og Danir komnir lang­leiðina í undan­úr­slit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mathias Gidsel skoraði tíu fyrir Dani í kvöld.
Mathias Gidsel skoraði tíu fyrir Dani í kvöld. Stuart Franklin/Getty Images

Danir stigu stórt skref í átt að undanúrslitum Evrópumótsins í handbolta er liðið vann eins marks sigur gegn Svíum í kvöld, 28-27.

Liðin skiptust á að skora í upphafi leiks og munurinn varð aldrei meiri en eitt mark stærstan hluta fyrri hálfleiksins. Það breyttist þó í stöðunni 12-12 þegar Danir skoruðu fjögur mörk í röð og komu sér í góða stöðu fyrir lokasprett hálfleiksins.

Svíar gerðu þó vel og minnkuðu muninn fyrir hlé, staðan 17-15 þegar flautað var til hálfleiks og liðin gengu til búningsherbergja.

Danska liðið hafði svo yfirhöndina allan seinni hálfleikinn, þó munurinn hafi aldrei orðið meiri en fjögur mörk. Þegar rétt rúmar fimm mínútur voru til leiksloka virtust Danir vera komnir með þetta, en þá skoruðu Svíar þrjú mörk í röð og minnkuðu muninn niður í 28-27 þegar um ein og hálf mínúta var eftir.

Eftir afar langa sókn tókst Dönum þó að skora manni fleiri og vistust vera að tryggja sér dramatískan tveggja marka sigur, 29-27. Svíar gáfu markið þó ekki þegjandi og hljóðalaust heldur heimtuðu að dómarar leiksins færu í skjáinn góða, sem og þeir gerðu.

Eftir miklar vangaveltur var mark Dana dæmt af, Svíar fengu boltann og slatta bætt við á klukkuna. Enn voru 17 sekúndur eftir og Svíar fengu því ótrúlegt tækifæri til að jafna metin. Svíar nýttu sóknina vel og komu sér í algjört dauðafæri þar sem Oscar Bergendahl skoraði. Hins vegar var liðsfélagi hans búinn að taka sér stöðu inni í teig og markið því ekki dæmt gilt.

Niðurstaðan varð því eins marks sigur Dana, 28-27, í leik sem verður helst minnst fyrir ótrúlegan, og ekki síst furðulegan, lokakafla. Danska liðið trónir á toppi milliriðilsins með sex stig, tveimur stigum meira en Svíþjóð sem situr í öðru sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×