Í hugleiðingum veðurfræðings segir að það verði él norðan- og austanlands, en annars víða bjart. Frost verður á bilinu fjögur til tólf stig. Í kvöld nálgast svo smálægð úr vestri og það fer að snjóa vestast.
„Í nótt og fram eftir degi á morgun er útlit fyrir snjókomu um landið suðvestanvert, þeim sem hyggja á ferðalög í þeim landsfjórðungi er bent á að fylgjast með fréttum af færð og veðri.
Áfram má búast við éljum norðan heiða, einkum við ströndina.
Kalt í veðri og líklegt að frostið nálgist 20 stig í innsveitum norðaustanlands,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Norðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og allvíða él, en snjókoma fram eftir degi um landið suðvestanvert. Frost 3 til 18 stig, kaldast í innsveitum norðaustanlands.
Á föstudag: Austlæg eða breytileg átt 3-10, stöku él og áfram kalt í veðri. Vaxandi austanátt sunnantil á landinu eftir hádegi og hlýnar, 15-23 og snjókoma eða slydda þar seint um kvöldið.
Á laugardag: Vestlæg eða breytileg átt og snjókoma eða slydda með köflum, en styttir upp á vestanverðu landinu. Hiti um eða undir frostmarki.
Á sunnudag: Norðaustanátt og dálítil él norðanlands, en bjart með köflum sunnan heiða. Kólnandi veður.
Á mánudag: Norðlæg átt, stöku él og kalt í veðri.
Á þriðjudag: Útlit fyrir austanátt með lítilsháttar éljum við suðurströndina.