Körfubolti

Beinum út­sendingum frá Subway deildunum fjölgað

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Beinum útsendingum frá leikjum í Subway deildunum í körfubolta mun fjölga til muna.
Beinum útsendingum frá leikjum í Subway deildunum í körfubolta mun fjölga til muna. vísir/hulda margrét

Stöð 2 Sport hefur aukið þjónustu sína við áskrifendur og fjölgað beinum útsendingum frá leikjum í Subway deildunum í körfubolta. Opnaðar hafa verið tvær hliðarrásir fyrir Subway deildirnar.

Breytingin tekur gildi strax í þessari viku en þá fara heilar umferðir fram í Subway deildum karla og kvenna. Beinum útsendingum úr hverri umferð fjölgar um tvær að lágmarki.

Stærstu leikir hverrar umferðar verða sýndir á aðalrásum Stöðvar 2 Sports ásamt umfjöllunarþáttum. Fyrst um sinn verða útsendingar frá leikjum á hliðarrásunum hvorki með lýsanda né endursýningum.

Aukaleikirnir verða sýndir á hliðarrásunum Subway deildin 1 og Subway deildin 2 sem verða aðgengilegar á myndlyklum Vodafone og Símans og í sjónvarpsappi Stöðvar 2.

„Það er okkur mikið ánægjuefni að geta þjónustað áhugafólk um íslenskar íþróttir og körfubolta enn betur en áður. Við á Stöð 2 Sport höfum lagt metnað okkar í að bæta umgjörð beinna útsendinga og umfjöllun um íslenskan körfubolta markvisst á hverju ári. Þetta er skref í þeirri vegferð,“ segir Eiríkur Stefán Ásgeirsson, forstöðumaður Stöðvar 2 Sports.

„Útsendingarnar á hliðarrásunum Subway deildin 1 og Subway deildin 2 eru fyrst og fremst hugsaðar til að veita stuðningsmönnum sem flestra liða í deildunum tækifæri að sjá sitt lið spila eins marga leiki og kostur er. Stöð 2 Sport mun sýna eins marga leiki og rúmast á stöðvum okkar hverju sinni og er viðmiðið að hliðarrásirnar tvær komi til viðbótar við þá leiki sem eru sýnir á aðalstöðvum okkar. Með þessu fjölgum við beinum útsendingum um tvær að lágmarki í hverri umferð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×