Lífið

Einn heitasti leikarinn í Hollywood um þessar mundir

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Stórleikarinn Barry Keoghan skín skært um þessar mundir.
Stórleikarinn Barry Keoghan skín skært um þessar mundir. John Salangsang/Golden Globes 2024/Golden Globes 2024 via Getty

Írski stórleikarinn Barry Keoghan á að baki sér glæstan kvikmyndaferil en hefur þó sjaldan skinið skærar en akkúrat núna. Hann fer með aðalhlutverk í kvikmyndinni Saltburn sem er á vörum margra og hefur meðal annars verið nefndur einn áhugaverðasti leikari sinnar kynslóðar.

Sérfræðingur í óþægilegum hlutverkum

Við skulum fá að kynnast þessari Hollywood stjörnu örlítið nánar og hans einstöku vegferð.

Keoghan er fæddur árið 1992 á Írlandi, byrjaði feril sinn árið 2011 en vakti almennilega athygli árið 2017 fyrir kvikmyndina The Killing Of Sacred Deer. Þar fer hann með hlutverk unglingsins Martin og þótti frammistaða hans óhugnanleg og öflug. 

Óhugnanleg og óþægileg hlutverk virðast vera tebolli Keoghan og má segja að það kjarni hlutverk hans sem Oliver Quick í Saltburn. Hann fékk Golden Globe tilnefningu sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir frammistöðuna.

Keoghan hefur meðal annars farið með hlutverk í Óskarstilnefndu myndinni The Banshees of Inisherin en hann var sömuleiðis tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikari í aukahlutverki. Ásamt því lék Jókerinn í kvikmyndinni The Batman árið 2022 og vakti sömuleiðis athygli í Marvel myndinni Eternals árið 2021, svo eitthvað sé nefnt.

Saltburn stjarnan Barry Keoghan var með öll smáatriði á hreinu í klæðaburði sínum á Golden Globe en hann var í fatnaði frá tískurisanum Louis Vuitton. Amy Sussman/Getty Images

Tískugúru frá Dublin

Barry Keoghan er sannarlega að eiga sitt stjörnumóment og verður áhugavert að fylgjast með honum á komandi tímum. Hann hefur skinið skært í hátískuhönnun á verðlaunahátíðum undanfarið, tekið skemmtilegar tískuáhættur og ratað á lista best klæddu stjarnanna.

Barry Keoghan sat í fremstu röð á vor/sumar tískusýningu Burberry. Hann skemmti sér vel hliðina á leikaranum Micheal Ward. Dave Benett/Getty Images for Burberry

Þessi hjartaknúsari var í sambúð með tannhjúkrunarfræðingnum Alyson Kierans en tilkynnti nú í byrjun árs að hann væri einhleypur. Saman eiga þau einn fimmtán mánaða gamlan son sem heitir Brando Keoghan. Barry Keoghan er búsettur í London en hefur undanfarið eytt miklum tíma í Hollywood. Hann lýsir borginni sem óraunverulegri og segir lífið í dag gjörólíkt því sem hann ólst upp við.

Alvöru daður við Jacob Elordi

Hann prýðir forsíðu febrúarblaðs tímaritsins GQ þar sem hann ræðir meðal annars um að daðra við mótleikara sinn í Saltburn, Jacob Elordi.

„Ég er í alvörunni að daðra,“ sagði Keoghan brosandi í viðtalinu. 

„Við erum stöðugt í nánum samskiptum og það er ekki bara fyrir myndavélarnar og frumsýningarnar. Hann er í alvöru eins og bróðir fyrir mér. Þegar þér líður þægilega í kringum einhvern geturðu verið í eins nálægum samskiptum við hann og þú vilt.“

Jacob Elordi og Barry Keoghan eru mjög nánir. Alberto Rodriguez/Variety via Getty Images

Erfið æska

Í viðtali við GQ ræðir Keoghan sömuleiðis mikilvægi þess að leggja allt sitt í hlutverkið og er óhræddur við að langa eins langt og hann getur í karaktersköpun sinni. Honum finnst mikilvægt að geta sýnt allar hliðar og heldur ekki aftur af sér.

„Fegurð mín hefur ekki fleytt mér svona langt,“ sagði Keoghan en bætti við að hann væri meðvitaður um að það vinni þó með honum að áhorfendur langi að horfa á hann. 

„Það opnar nýjar leiðir fyrir mig og er hluti af því sem einkennir aðalhlutverkið.“

Hann opnar sig sömuleiðis um erfiða tíma í lífi sínu en Keoghan missti móður sína þegar hann var tólf ára gamall. Hún hafði verið í fíkniefnaneyslu og glímt við alls kyns erfiðleika. Þrátt fyrir mikla velgengni finnur Keoghan oft fyrir einmannaleika og hugurinn leitar þá gjarnan til móður sinnar. 

„Það eru mörg ár síðan hún féll frá en ég hugsa samt mikið um hana. Þegar allt gengur vel langar mig að fagna því með henni.“

Hann segir að hún hafi vitað hvað hann elskaði mikið að koma fram og kallaði hann gjarnan Little Timmy

„Ég veit ekki afhverju hún kallaði mig það. En ég elskaði að fá hana til að hlæja og dansa fyrir hana.“

Barry Keoghan hefur upplifað ýmislegt á sinni lífsleið. Hann missti móður sína þegar hann var tólf ára gamall og segist stöðugt hugsa til hennar. Emma McIntyre/WireImage

Vill kaupa hús fyrir ömmu sína

Keoghan ólst upp á fósturheimilum í Dublin áður en hann flutti ásamt bræðrum sínum inn með ömmu sinni og frænkum. 

„Ég hef ekki enn náð að kaupa hús fyrir þau en það er án efa á dagskrá hjá mér. Ég ætla að láta það gerast.“

Leiklistarferill hans hófst fyrir einskæra tilviljun þegar að hann rakst á auglýsingu í glugga við hliðina á litlu ræktinni þar sem hann lærði að boxa. Í auglýsingunni var verið að leita eftir fólki sem var ekki leikari fyrir litla bíómynd. 

„Þau voru líka að leita eftir einhverjum sem átti mótórkross hjól. Ég tikkaði í bæði boxin, var ekki leikari og ég átti hjólið,“ segir Keoghan en bætir þó við að leiklistin hafi alltaf heillað hann og honum hafi þótt gaman að taka þátt í skólaleikritum. 

Hann hringdi í númerið á auglýsingunni úr síma ömmu sinnar og fékk í kjölfarið hlutverkið, í kvikmynd sem heitir Between the Canals

„Þetta var samt ekki þannig að ég hafi fengið hlutverkið og strax orðið Hollywood stjarna,“ sagði Keoghan og bætir við að yfir áratugur af mikilli vinnu hafi farið í það að komast á þann stað sem hann er núna. 

Barry Keoghan og Margot Robbie saman á viðburði í Los Angeles í síðustu viku. Robbie er framleiðandi á kvikmyndinni Saltburn. Presley Ann/Getty Images for W Magazine

Rétt að byrja?

Framtíðin er björt þessari rísandi stjörnu en næsta hlutverk hans verður í kvikmyndinni Bird í leikstjórn Andreu Arnold, sem er konan á bak við myndir á borð við Fish Tank og American Honey. Lítið er vitað um plott myndarinnar en Keoghan hætti við að leika í Gladiator 2 til þess að vera í Bird

Ásamt því fer hann með hlutverk í kvikmyndinni Masters of The Air sem kemur út 26. janúar. Annars segist hann einfaldlega ætla að bíða og sjá hvaða tækifæri Saltburn leiðir af sér en það má gera ráð fyrir því að Keoghan verði nafn sem enn fleiri koma til með að þekkja. 

Barry Keoghan býr yfir skemmtilegum stíl og fer eigin leiðir í fatavali. Leon Bennett/WireImage

Tengdar fréttir

Tískan á Golden Globe: Bleikar bombur og litaglaðar stjörnur

Verðlaunahátíðin Golden Globe fór fram í gærkvöldi á Beverly Hills hótelinu í Los Angeles. Stærstu stjörnur heimsins skinu sitt allra skærasta á rauða dreglinum en glæsilegir síðkjólar, pallíettur og litagleði voru í forgrunni. 

Saltburn: Hinn hæfileikaríki herra Quick

Saltburn er nýjasta kvikmynd Emerald Fennell, leikstýru einnar eftirtektarverðustu kvikmyndar ársins 2022, A Promising Young Woman. Það er Amazon-streymisveitan Prime sem frumsýndi hana rétt fyrir jól.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.