Færeyingar náðu í sitt fyrsta stig á stórmóti í gær þegar þeir gerðu jafntefli við Norðmenn. Færeyska liðið var þremur mörkum undir þegar skammt var eftir en tókst á ótrúlegan hátt að jafna metin og skoraði Elias Ellefsen á Skipagötu jöfnunarmarkið úr vítakasti þegar fjórar sekúndur voru eftir.
Þetta minnti óneitanlega á það sem gerðist í leik Íslendinga og Serba á föstudag. Þá var það íslenska liðið sem jafnaði undir lokin eftir að Serbar voru nánast með unninn leik í höndunum.
Færeyingar virðast hafa fylgst vel með þeim leik því Óli Mittún leikmaður liðsins sagði að Færeyingar hafi fengið innblástur frá íslenska liðinu.

„Við trúðum þessu þó Noregur hafi verið með boltann rétt fyrir leikslok,“ sagði Mittún í viðtali við Kringvarp Færeyja eftir leik.
„Ísland var tveimur mörkum undir þegar 30 sekúndur voru eftir og þetta er það sama sem gerist í dag.“
Ellefsen á Skipagötu stal boltanum af Harald Reinkind undir lokin og fiskaði vítið sem hann skoraði síðan úr. Ellefsen á Skipagötu og Reinkind eru liðsfélagar hjá þýska liðinu Kiel.
„Ég veit ekki hversu miklir félagar þeir verða þegar hann kemur aftur til Kiel,“ sagði Mittún brosandi.