Umræddir vísindamenn tóku fimm flöskur frá þremur fyrirtækjum sem setja vatn í plastflöskur og selja og notuðu tækni sem þeir þróuðu, þar sem notast er við smásjár og leysigeisla, til að greina plastagnir í vatninu. Agnirnar eru innan við míkron í þvermál, sem er einn milljónasti úr metra. Þvermál hárs er um 83 míkron.
Í flöskunum fimm fundust frá 110 þúsund til fjögur hundruð þúsund agnir, að meðaltali um 240 þúsund, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar. Fréttaveitan segir að sambærilegar rannsóknir hafi skoðað mun stærri plastagnir og þær hafi verið töluvert minni.
Vitnað er í forsvarsmann rannsóknarinnar, Naixin Qian, sem segir útlit fyrir að mest af plastinu komi úr flöskunum sjálfum og frá síu sem ætlað er að halda efnum úr vatninu.
Vísindamenn hafa ekki sagt til um hvort þessar smáu plastagnir ógni heilsu fólks. Einn viðmælandi AP sagði það til rannsóknar en vitað væri að þær skiluðu sér inn í vefi dýra og manna. Núverandi rannsóknir snerust margar um það að finna svör við því hafa áhrif þessar agnir hafa á frumur í líkömum dýra og manna.
Í svari frá alþjóðlegum samtökum vatnsflöskufyrirtækja við fyrirspurn AP segir að á meðan spurningum um áhrif þessara agna á heilsufar fólks sé ósvarað, sé rannsóknum eins og þeirri sem um ræðir, eingöngu ætlað að hræða fólk.
Vísindamenn segja vísbendingar um að plastagnir í frumum fólks geti valdið skaða og meðal annars krabbameini.