Samkvæmt lögunum verður bannað að rækta og slátra hundum til manneldis og þá verður einnig ólöglegt að dreifa og selja hundakjöt. Þeir sem slátra hundum eiga yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi en þeir sem rækta hundana og selja kjötið eiga yfir höfði sér tveggja ára fangelsisdóm.
Neysla kjötsins verður ekki refsiverð.
Lögin taka gildi eftir þrjú ár en um er að ræða aðlögunartíma fyrir ræktendur og þá sem hafa reitt sig á tekjur af sölu hundakjöts, til að mynda veitingastaði. Þeir munu þurfa að leggja fram áætlun til yfirvalda um það hvernig þeir hyggjast takast á við breytinguna.
Verulega hefur dregið úr neyslu hundakjöts í Suður-Kóreu síðustu áratugi en vinsældir þess hafa minnkað mjög, ekki síst á meðal ungs fólks. Engu að síður voru ræktendur um það bil 1.150 árið 2023 og veitingastaðir sem höfðu hundakjöt á boðstólnum 1.600.
Samkvæmt Gallup könnun frá því í fyrra höfðu aðeins átta prósent svarenda bragðað á hundakjöti á síðastliðnum tólf mánuðum en hlutfallið var fimmtán prósent árið 2015. Undir 20 prósent sögðust fylgjandi neyslu hundakjöts.