Veður

Beina til landsins hlýju og röku lofti að sunnan

Atli Ísleifsson skrifar
Reikna má með hita fimm til tólf stigum að deginum.
Reikna má með hita fimm til tólf stigum að deginum. Vísir/Vilhelm

Víðáttumikil hæð yfir Norðursjó beinir nú alldjúpum lægðum og lægðadrögum norður yfir Grænlandshaf og saman færa veðrakerfin hlýju og röku lofti til landsins að sunnan.

Á vef Veðurstofunnar segir að það gangi á með sunnanstrekkingi eða allhvössum vindum og vætu með köflum, en helst að mestu þurru og björtu á Norður- og Austurlandi.

Fram kemur að það verði sunnan og suðaustan tíu til átján metrar á sekúndu þar sem hvassast verður vestantil.

Fremur hlýtt í veðri á landinu, ekki síst fyrir norðan þar sem hnjúkaþeys gætir. Má reikna með hita fimm til tólf stigum að deginum.

Spákort fyrir klukkan 10 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Suðaustlæg átt, 10-18 m/s, hvassast í vindstrengjum vestantil. Víða lítilsháttar væta og hiti 3 til 8 stig, en bjartviðri og hiti kringum frostmark á Norður- og Austurlandi.

Á fimmtudag: Sunnan- og suðvestanátt, yfirleitt 10-15 m/s og rigning, en hægara og þurrt um landið norðaustanvert. Hlýnandi veður.

Á föstudag: Vestlæg átt og stöku skúrir eða slydduél, en þurrt að kalla eystra, en norðlægari norðantil um kvöldið og kólnar í veðri.

Á laugardag: Norðlæg átt og dálítil él á víð og dreif. Frost víða 0 til 10 stig, kaldast norðaustanlands.

Á sunnudag: Vestlæg eða breytileg átt og bjartviðri en snjókoma vestantil seinnipartinn. Talsvert frost um land allt.

Á mánudag: Útlit fyrir norðanátt með snjókomu eða él víða um land og hörkufrost.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×