Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?
Hvað hún er frábær leið til að fá útrás á sköpunargáfuna og bæta smá kryddi í lífið.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?
Yfirskyrta frá Diesel sem ég keypti í fyrra. Hún er mjög fjölhæf en á sama tíma einföld og hef þess vegna notað hana mjög mikið síðastliðið ár.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?
Nei, fataskápurinn minn er er nokkuð samrýmdur og ferlið mitt er vanalega þannig að ég er með eina flík í huga sem ég vil vera í þann daginn og svo smíða ég restina af outfitinu í kringum það.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?
Einfaldleiki í bland við gæði.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?
Já, hann er í stöðugri þróun. Ef ég gríp mig við að nota einhverja flík sjaldan er ég fljótur að selja hana eða láta hana frá mér. Ég hef á síðustu þremur árum fækkað fötunum mínum verulega og hefur það bara bætt stílinn ef eitthvað er.
Stærsta breytingin var að minnka fókus á merkjavörur og einblína á gæði í efnum og falleg snið.

Nýturðu þess að klæða þig upp?
Já, það er gaman að smíða flott outfit og fá sjálfstrausts skot (e. confidence boost) í leiðinni.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?
Ég sæki mikinn innblástur í kvikmyndir og þætti, svo auðvitað á samfélagsmiðlum eins og TikTok og Instagram.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?
Bannað að vera hræddur við að prófa nýja stíla og snið, maður getur alltaf vaxið og komið sjálfum sér á óvart. Vertu óhræddur við að prófa eitthvað nýtt.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?
Jakkinn sem ég klæddist þegar ég útskrifaðist sem fatahönnuður, dagurinn var frábær og ég leit vel út.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?
Ekki sanka að þér of mörgum flíkum, seldu eða gefðu það sem þú notar ekki. Vertu í vönduðum flíkum, ef þú átt eitthvað sem passar illa og ef þú hefur ekki not fyrir flíkina seldu hana þá eða gefðu. Þá verður mikið léttara og þægilegra að klæða sig.

Hér má fylgjast með Mundi á samfélagsmiðlinum Instagram.