Hann segir stöðuna ekki vera góða og að eitthvað þurfi að skoða verkferla.
„Fyrir utan það að það er nú sjötti janúar í dag og heima hjá mér eru allir þá get ég ekki farið með neitt rusl vegna þess að það flæðir yfir allar tunnur. Það bendir mér allavega á að það þarf eitthvað að skoða einhvers staðar. Sorpa er nú sameign okkar á höfuðborgarsvæðinu.“ segir Sigurður í samtali við fréttastofu.
Á sorpi má sjá ástand samfélags
Sigurður segir sér hafa blöskrað við að sjá þetta og segir að sorphirðuvandræði séu greinilega ekki neitt einskorðað við Reykjavíkurborg.
„Það er ekkert allt á kafi í snjó og það er vika liðin af árinu þannig ég get ekki séð hvað er að tefja þetta. Svona faglega þarf eitthvað að skoða einhverja ferla,“ segir hann.
„Það hefur löngum verið sagt að á sorpi megi sjá ástand samfélags og ef þetta er lýsandi þá má einungis geta í eyðurnar,“ segir Sigurður að lokum.
Bílavandræði ollu töfunum
Reykjavíkurborg tilkynnti að tafir hafi orðið á losun gáma á höfuðborgarsvæðinu vegna bilana tveggja sorphirðubíla en að starfsmenn hafi verið kallaðir til vinnu í dag á laugardegi til að losa úr gámum.
„Til þess að draga úr áhrifunum hefur Sorphirða Reykjavíkur lánað einn af sínum sorphirðubílum til að losa grenndargáma á kvöldin,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Fréttin hefur verið uppfærð þar sem lesa mátti í fyrri útgáfu að Sorpa kæmi að sorphirðu í Garðabæ. Hið rétta er að Garðabær er með sorphirðusamning við Íslenska gámafélagið.