Erlent

Tæp­lega tvö­hundruð og fimm­tíu enn saknað í Japan

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Verst er ástandið á Noto skaganum í miðhluta landsins.
Verst er ástandið á Noto skaganum í miðhluta landsins. AP Photo/Hiro Komae

Í gærkvöldi voru rúmir þrír sólarhringar liðnir frá Jarðskjálftanum öfluga sem reið yfir Japan á dögunum, en eftir þann tíma dvína líkurnar á því að finna fólk lifandi í rústum húsa verulega.

Nú stendur tala látinna í níutíu og tveimur en talið er að 242 sé enn saknað. Skjálftinn mældist 7,6 stig og átti upptök sín í miðhluta eyjaklasans. Margir eru enn í rústum húsa, flestir í bæjunum Suzu og Wajima.

Tæplega fimm þúsund manns vinna nú að björgunarstörfum á svæðinu og enn eru mörg samfélög einangruð þar sem vegir eyðilögðust. Þá eru tugir þúsunda enn án vatns og rafmagns.

Fumio Kishida forsætisráðherra Japan sagði á fundi með viðbragðsaðilum í morgun að uppgjöf sé ekki í boði og hvatti björgunarfólk til að gera sitt ítrasta til að bjarga fleirum og koma fólki til aðstoðar á einangruðum svæðum.


Tengdar fréttir

Þrjá­tíu látnir hið minnsta og fjölda enn leitað

Talsmenn yfirvalda í Ishikawa-héraði í Japan hafa staðfest að þrjátíu hið minnsta hafi látið lífið í stóra skjálftanum sem reið í gær og varð til þess að fjöldi bygginga eyðilagðist og flóðbylgja skall á landið. Fjölda fólks er enn leitað.

Enn leitað að fólki eftir jarð­skjálftann í Japan

Að minnsta kosti fimm eru látnir eftir jarðskjálftann sem reið yfir Japan á nýársdag að sögn yfirvalda. Fjöldi húsa eyðilagðist, um 33 þúsund heimili eru án rafmagns og mörg þúsund manns hafa flúið vesturströndina vegna hættu á flóðbylgjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×