Þegar 7,8 sekúndur voru eftir og staðan jöfn, 82-82, átti Snæfell innkast undir körfu Fjölnis. Shawnta Shaw fékk boltann og keyrði inn í miðjan teiginn hjá gestunum. Fjórir leikmenn Fjölnis soguðust að Shaw sem kastaði boltanum út í vinstra hornið á Rupnik sem var dauðafrí.
Hún hikaði ekkert, lét vaða og setti niður þriggja stiga skot og tryggði Snæfelli sigurinn. Lokatölur 85-82, Hólmurum í vil.
Sigurkörfu Rupnik má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Rupnik skoraði 21 stig í leiknum og hitti úr þremur af fimm þriggja stiga skotum sínum. Shaw var stigahæst í liði heimakvenna með 29 stig. Hún tók einnig tólf fráköst og gaf níu stoðsendingar.
Snæfell er enn á botni Subway deildarinnar en nú með tvö stig. Fjölnir er í áttunda og næstneðsta sæti með fjögur stig.
