Fótbolti

Birnir Snær og Sig­dís Eva sköruðu fram úr hjá Víkingi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Birnir Snær og Sigdís Eva með verðlaun sín.
Birnir Snær og Sigdís Eva með verðlaun sín. Víkingur

Knattspyrnufólkið Birnir Snær Ingason og Sigdís Eva Bárðardóttir voru í gær kjörin íþróttakarl og íþróttakona Víkings árið 2023.

Birnir Snær var lykilmaður í Íslands- og bikarmeistaraliði Víkinga í sumar. Hann skoraði tólf mörk og lagði upp átta á frábæru tímabili Víkinga. Hann var kjörinn leikmaður ársins hjá Víkingi og besti leikmaður Bestu deildarinnar af leikmönnum og einnig í Stúkunni á Stöð 2 Sport.

Í lok árs fékk Birnir Snær einnig tilnefningu sem íþróttamaður Reykjavíkur árið 2023.

Sigdís Eva er uppalin hjá Víkingi og var fastamaður í liði Víkinga í sumar. Víkingur vann Lengjudeildina auk þess að verða bikarmeistari eftir að hafa unnið sigur á Blikum í úrslitaleik. Sigdís Eva var valin efnilegasti leikmaður Lengjudeildarinnar á tímabilinu.

Sigdís Eva lék með þremur landsliðum á tímabilinu og á að baki leiki með U16, U17, U19 og U20 ára landsliðum Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×