Flugeldasalan stendur til klukkan fjögur á gamlársdag. Desembermánuður er mikilvægur björgunarsveitum vegna fjáraflana. Sumar sveitir selja jólatré, þó ekki allar, en flugeldarnir eru langmikilvægastir.
„Flugeldarnir eru án vafa ein af stærstu fjáröflunarleiðum sveitanna og sumar sveitir eru að fá allt upp að 70-80 prósent af rekstrarfé sínu inn á þessum tíma,“ segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.
Hann segir söluna yfirleitt fara hægt af stað fyrstu dagana.
„Það er gamlársdagur sem er mikilvægastur og langflestir koma þá. Það koma ár þar sem allt að helmingur af sölunni á sér stað á gamlársdag.“
Sölustaðirnir eru á annað hundrað um land allt og úr nægu að velja.
„Það eru alltaf nýjar vörur og kaka ársins er alltaf sérhönnuð á hverju ári. Það sem er kannski merkilegast núna er að við getum boðið flugeldana á sama verði og í fyrra, þannig að það er gamalt verð,“ segir Jón Þór.
Hvers vegna er það?
„Við náðum annars vegar að semja vel við okkar byrgja, aðallega í Kína. Gengið var okkur aðeins hagstætt þegar við vorum að ganga frá kaupunum, við náðum góðum samningum um flutning sjóleiðina. Þannig að útkoman er að við getum boðið sama verð.“