Lengst af ársins 2023 var íslenskur hlutabréfamarkaður í ólgusjó. Þar skipti mestu máli hátt vaxtastig, knúið áfram af þrálátri verðbólgu og háum verðbólguvæntingum, sem var dragbítur á markaðinn. Þá bárust fréttir af stærstu skráðu félögunum sem fóru illa í fjárfesta. Áhyggjur af köldu efnahagslífi og heitum kjarasamningunum á næsta ári vofðu yfir markaðnum og alvarlegt stríðsástand í heiminum bætti ekki úr skák.
Þegar mest lét hafði Heildarvísitala Aðalmarkaðarins lækkað um næstum 17% frá áramótum. Lækkunin gekk hins vegar nánast að fullu til baka nú undir lok árs eftir fréttir af mögulegu yfirtökutilboði í Marel, vel heppnað útboð Ísfélagsins, og vonir um að sátt gæti náðst í kjarasamningum sem slegið gæti á verðbólguna.
Fyrirtæki kljúfa ölduna
Þegar svo hart er í ári á hlutabréfamarkaði dregur venjulega úr skráningaráhuga, félög halda að sér höndum þar til þau fá hærra verð fyrir hlutabréfin, markaðurinn er settur á ís. Og vissulega bíða nú sum áhugasöm félög betri markaðsaðstæðna. En önnur félög klufu ölduna á árinu með glæsibrag, sáu tækifæri þar sem aðrir sáu hættur. Þannig voru útboð bæði Hampiðjunnar og Ísfélagsins sérlega vel heppnuð, löðuðu að sér mikinn fjölda fjárfesta og stærri fjárfestar voru tilbúnir að greiða mun hærra verð en stóð almenningi til boða.
Í útboði Hampiðjunnar, sem haldið var í tengslum við flutning félagsins af First North vaxtarmarkaðnum á Aðalmarkaðinn, var þreföld eftirspurn, 3.700 áskriftir bárust og söluandvirðið var 10,9 milljarðar. Þetta var athyglisverð niðurstaða í ljósi þess að í upphafi útboðsins 25. maí hafði Heildarvísitalan lækkað um 8% á árinu. Enn frekar hafði hallað undan fæti á markaðnum þegar útboð Ísfélagsins, í tengslum við skráningu félagsins á Aðalmarkaðinn, hófst þann 23. nóvember en Heildarvísitalan var þá 15% lægri en um áramót. Engu að síður var tæplega fjórföld eftirspurn í útboðinu, um 6.500 áskriftir bárust og söluandvirðið nam tæplega 18 milljörðum.
Heildarmarkaðsvirði skráðra sjávarútvegsfyrirtækja í dag (21. desember) er hvorki meira né minna en 562 milljarðar eða öllu hærra en verðlagsleiðrétt markaðsvirði skráðra fyrirtækja í greininni þegar þau voru flest.
Útboðin sýna glögglega að meta þarf hvernig viðrar til útboðs og skráningar fyrir hverja atvinnugrein og jafnvel hvert félag fyrir sig, frekar en að skoða hvernig vindar blása almennt.
Eitt annað félag nýskráði sig á árinu, Icelandic Salmon, sem var skráð á First North vaxtarmarkaðinn, án undanfarandi útboðs, og varð þar með fyrsta fiskeldisfyrirtækið í Kauphöllinni. Auk Hampiðjunnar fluttu tvö önnur félög sig yfir á Aðalmarkaðinn af First North, Amaroq Minerals og Kaldalón, en hvorugt félagið hélt almennt útboð. Alls hafa sjö félög flutt sig af First North á Aðalmarkaðinn í gegnum tíðina hér á Íslandi og svipaða sögu er að segja af First North mörkuðunum á Norðurlöndunum almennt þar sem 130 félög hafa flutt sig yfir á aðalmarkað. First North er að standa undir nafni sem vaxtarmarkaður og nýtist félögum bæði til vaxtar og til að venjast þeim skyldum sem fylgja því að vera á hlutabréfamarkaði áður en stigið er á stóra sviðið, Aðalmarkaðinn.
Kröftug endurkoma sjávarútvegs á hlutabréfamarkað
Þá er einnig ánægjulegt að fylgjast með endurkomu sjávarútvegsins í Kauphöllina, sem er kröftugri en virðist við fyrstu sýn. Þetta sést með samanburði á stöðu sjávarútvegs í Kauphöllinni nú og í árslok 1999, þegar fjöldi skráðra félaga í greininni (að meðtöldum sölufyrirtækjum) náði hámarki en þá voru þau 24 talsins. Heildarmarkaðsvirði sjávarútvegsfyrirtækjanna var þá 91 milljarður, sem samsvarar 481 milljarði á núverandi verðlagi, og var vægi þeirra í heildarmarkaðsvirði allra skráðra félaga 24,5%. Skráð sjávarútvegsfyrirtæki í dag eru fimm talsins, að meðtöldu sölufyrirtæki sjávarafurða og fiskeldisfyrirtæki.
Hæpið er til dæmis að vísitölufyrirtæki á borð við MSCI og FTSE myndu telja Kauphöllina heimamarkað JBT. Í augum vísitölufyrirtækjanna er því hætt við að stórum fyrirtækjum á markaðnum myndi þrátt fyrir allt fækka um eitt sem gæti heft, eða að minnsta kosti tafið, hækkun á gæðaflokkun markaðarins.
En þetta segir ekki alla söguna því fyrirtækin hafa keypt og sameinast öðrum fyrirtækjum í gegnum tíðina og vaxið og dafnað að öðru leyti. Raunar er það svo að 10 fyrirtæki sem skráð voru í Kauphöllinni í árslok 1999 eru í eigu (eða voru forverar) sjávarútvegsfyrirtækjanna sem skráð eru í dag. Þá er heildarmarkaðsvirði skráðra sjávarútvegsfyrirtækja í dag (21. desember) hvorki meira né minna en 562 milljarðar eða öllu hærra en verðlagsleiðrétt markaðsvirði skráðra fyrirtækja í greininni þegar þau voru flest. Það sem meira er að þá er hlutdeild sjávarútvegsfyrirtækja í heildarmarkaðsvirði skráðra félaga næstum því jafn há í dag og hún var í árslok 1999 eða 21%.
Væntingar standa til fleiri skráninga og þær væntingar styrktust enn með nýlegu frumvarpi matvælaráðherra til laga um sjávarútveg. Í frumvarpinu er hvatt til skráningar á markað með því að mörk hámarksaflahlutdeildar verði rýmkuð hjá félögum sem skráð eru á markað í 15% í stað þeirra 12%, sem gilda um öll félög í dag. Ég fagna þessum áætlunum mjög enda tel ég að skráning, með dreifðara eignarhaldi og auknu gagnsæi, sé grundvöllur víðtækari sáttar um sjávarútveginn.
Áframhaldandi uppbygging þrátt fyrir áskoranir
Eitt afsprengi sjávarútvegsins, Marel, sem er næst stærst allra félaga í Kauphöllinni að markaðsvirði, stendur nú í árslok á mögulegum tímamótum en bandaríska félagið John Bean Technologies (JBT) hefur sent Marel óskuldbindandi viljayfirlýsingu varðandi mögulegt tilboð í öll hlutabréf í félaginu. Óvíst er hvort af tilboði og yfirtöku JBT á Marel verður, en hvað myndi slík yfirtaka þýða fyrir íslenska hlutabréfamarkaðinn? Erfitt er að fullyrða um það því JBT hefur viðrað möguleika á tvískráningu félagsins í Nasdaq Iceland verði af yfirtökunni á Marel. Það yrði þá líklega það verðmætasta í Kauphöllinni.
En þó svo yrði myndi yfirtöku fylgja ákveðin áskorun fyrir markaðinn. Hæpið er til dæmis að vísitölufyrirtæki á borð við MSCI og FTSE myndu telja Kauphöllina heimamarkað JBT. Í augum vísitölufyrirtækjanna er því hætt við að stórum fyrirtækjum á markaðnum myndi þrátt fyrir allt fækka um eitt sem gæti heft, eða að minnsta kosti tafið, hækkun á gæðaflokkun markaðarins hjá vísitölufyrirtækjunum og þar með hægt á erlendu innflæði vísitölusjóða.
Útboðin sýna glögglega að meta þarf hvernig viðrar til útboðs og skráningar fyrir hverja atvinnugrein og jafnvel hvert félag fyrir sig, frekar en að skoða hvernig vindar blása almennt.
Talandi um vísitölur, þá er ánægjulegt að tilkynnt var um fjölgun félaga í Úrvalsvísitölunni frá og með ársbyrjun 2024 úr 10 í 15, sem er til marks um uppbyggingu á markaðnum og er til þess fallin að styrkja hann. Stærri vísitala mun endurspegla markaðinn betur og fjárfestingar í sjóðum sem fylgja vísitölunni munu bjóða upp á meiri áhættudreifingu. Ætla má að þetta auki áhuga sjóðafyrirtækja á Úrvalsvísitölunni og fjárfesta á að kaupa í sjóðum sem fylgja henni.
Fæstir fjárfestar á íslenska hlutabréfamarkaðnum munu líta árið 2023 saknaðaraugum, en þrátt fyrir það er athyglisvert að uppbygging markaðarins hélt áfram, eins og rakið er hér á undan.
Höfundur er forstjóri Nasdaq Iceland.