Innlent

Rík­harður Sveins­son er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Ríkharður Sveinsson var formaður Taflfélags Reykjavíkur.
Ríkharður Sveinsson var formaður Taflfélags Reykjavíkur. Skák.is

Ríkharður Sveinsson, formaður Taflfélags Reykjavíkur, er látinn, 56 ára að aldri. Greint var frá andlátinu á heimasíðu Skáksambands Íslands á dögunum en Ríkharður lést á gjör­gæslu­deild Land­spít­al­ans 20. desember.

Gunnar Björnsson, formaður Skáksambandsins, segir að Ríkharður, eða Rikki eins og hann hafi ávallt verið kallaður, hafi verið sannkallaður máttarstólpi í íslensku skáklífi og að skákheyfingin á Íslandi hafi misst einn sinn besta mann.

Ríkharður kom ungur inn í stjórn Taflfélags Reykjavíkur og átti þar sæti með hléum í fjörutíu ár. Þá hafi enginn setið lengur sem formaður TR en hann. Ennfremur segir að Ríkarður hafi verið einn fremsti og úrræðabesti skákdómari landsins. „Tók á hlutanum þegar á þurfti. Ákveðinn en samt sanngjarn,“ segir Gunnar.

Í frétt Morgunblaðsins segir að Rík­h­arður hafið lesið þýsku við Há­skóla Íslands að loknum menntaskóla og að taugar hans til Þýska­lands hafi ætíð verið sterk­ar, en móðir hans sé þaðan.

Ríkharður starfaði um árabil hjá Sýslu­mann­in­um í Reykja­vík þar sem hann vann meðal annars við skjala­vinnslu. Hann starfaði einnig hjá Heklu hf. um tíma og sinnti þar skrif­stofu­vinnu og samn­inga­gerð, en frá 2008 hafði Rík­h­arður starfað sjálfstætt fyr­ir ýmsa lög­fræðinga og sinnt marg­vís­legri um­sýslu fyr­ir þá við upp­gjör, slit á búum og eigna­sölu.

Eftirlifandi eig­in­kona Rík­h­arðs er Jóna Kristjana Hall­dórs­dótt­ir, sér­fræðing­ur hjá Hug­verka­stofu, og þau eiga son­inn Hall­dór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×