Lífið

Gat ekki hætt að semja ljóð um blæðingar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Ester segir að blæðingum eigi ekki að fylgja nein skömm.
Ester segir að blæðingum eigi ekki að fylgja nein skömm. Vísir/Vilhelm

Ester Hilmarsdóttir gaf á þessu ári út sína fyrstu ljóðabók og var í kjölfarið tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í flokki fagurbókmennta. Bókin fjallar um blæðingar og er að sögn Esterar ekkert dregið undan.

„Sigga Dögg er svo mikil ævintýrakona. Hún var að setja upp sýningu um blæðingar og spurði mig hvort ég vildi vera með. Semja nokkur ljóð sem yrðu sett upp á vegg. En svo þegar ég byrjaði gat ég ekki hætt. Viðfangsefnið var svo skemmtilegt. Ramminn er þröngur en á sama tíma er hægt að tækla það út frá mörgum sjónarhornum,“ segir Ester.

Sýningin sjálf hét Innlit til Rósu frænku og var sett upp á Menningarnótt í fyrra. Ester segir að það sem átti að vera nokkur ljóð hafi svo endað sem 40 ljóð og myndskreytingar af blæðandi túrverum.

Hún segir að eftir sýninguna hafi hún ákveðið að láta reyna á að fá ljóðin útgefin í bók. Hún hafði samband við Bjarna Harðarson útgefanda hjá bókaútgáfunni Sæmundi.

„Hann er svo framsýnn maður og vildi gefa hann út. Elín konan hans gaf mér rosalega góða ritstjórn og allt í einu var bara komin bók.“

Frá fyrsta dropa til þess síðasta

Spurð hvað ljóðin fjalla um segir Ester að ljóðin fjalli um blæðingar frá fyrsta dropa til þess síðasta.

„Markmiðið með bókinni er að opna á umræðu um blæðingar og leyfa lesandanum að stíga inn í þá upplifun að vera á blæðingum. Bókin er þannig alveg jafn mikið fyrir þá sem blæðir og þá sem blæðir ekki. Bara til að komast í námunda við þessa upplifun. Ég myndi segja að þetta væri til dæmis fyrirtaks bók fyrir feður sem eiga dætur.“

Ester segir að með bókinni vilji hún pota í skömm sem loði enn því náttúrulega fyrirbæri sem blæðingar eru.

„Við höfum enga stjórn á þessu. Þetta er bara líkaminn okkar og þetta á ekki að vera svona pukur og leynimakk. Það er mikið pokað í þetta í bókinni,“ segir Ester og að á sama tíma og konur eigi að halda blæðingum fyrir sjálfa sig eigi þær að vera ofboðslega umhverfisvænar.

„Allar myndskreytingar í bókinni eru eftir mig sjálfa. Ég er ekki menntuð í myndlist en finnst gaman að krota eitthvað. Úr urðu einfaldar línuteikningar með vatnslitum,“ segir Ester. Mynd/Ester Hilmarsdóttir

„Við eigum að skammast okkar fyrir að nota hinar og þessar vörur.“

„Ég tek þetta alveg frá eftirvæntingunni að byrja á blæðingum sem unglingur og að tíðahvörfum. En þetta er líka til að fagna þessu ferli og til að benda á fegurðina í flæðinu eins og titill bókarinnar bendir til,“ segir Ester létt.

Spurð hvort hún eigi einhverjar góðar blæðingarsögur játar hún því og segir þær flestar rata í bókina.

„Ég átti sem unglingur vinkonu sem fékk partý og hring með rauðum steini þegar hún byrjaði á blæðingum. Mér fannst það, sérstaklega á þessum tíma, alveg magnað,“ segir Ester og að þessi viðbrögð hafi verið alger undantekning í vinkonuhópnum.

Ester segir bókina fyrir alla. Þá sem blæða og þá sem blæða ekki.

„Viðbrögð flestra mæðra voru frekar í áttina „Æ, ertu byrjuð á þessu veseni“ eða eitthvað „Oh, aumingja þú“,“ segir Ester og að það hafi verið alger vakning að gera sér grein fyrir því að það væri hægt að fagna þessum tímamótum í stað þess að kvíða þeim.

„Ég ákvað strax að ef ég myndi eignast dóttur þá ætlaði ég frekar að kjósa þessa leið þegar það kæmi að þessum tímamótum hjá henni.“

Bjó erlendis í fimmtán ár

Ester er á fertugsaldri og hefur flakkað mikið um heiminn. Hún er búsett í Þingeyjarsveit núna þar sem hún er uppalin.

„Ég hef búið í Reykjavík, San Diego, Edinborg, Hong Kong og Zürich,“ segir Ester en hún lærði í San Díegó og Edinborg og fór svo eftir það til Hong Kong og Zurich að vinna.

„Árin í Edinborg voru dásamleg. Þar var ég í námi með krökkum sem öll brunnu fyrir bókmenntum og útgáfu. Ég var búin að finna mitt fólk þar. Við þræddum bókabúðir, bókasöfn og alla bókmenntaviðburði sem boðið var upp á í Edinborg og Glasgow á þessum tíma. Drukkum bjór með Ian Rankin og rákumst reglulega á J.K. Rowling í Waitrose í Morningside.“

Ester vinnur nú að sinni fyrstu skáldsögu og stefnir á að klára hana um jólin. Vísir/Vilhelm

Í Hong Kong starfaði Ester svo sem aðstoðarritstjóri á tímariti sem heitir Home Journal. Þaðan lá leiðin til Zürich þar sem hún vann sem sjálfstætt starfandi textasmiður, sá um ritstjórn og prófarkalestur fyrir fyrirtækið ONANOFF í Hong Kong.

„Meðfram þessu hef ég ætíð skrifað fyrir mig sjálfa, ljóð og sögur, en það hefur að mestu kúrt ofan í skúffu fram að þessu. En ég er svona að skríða út úr skúffunni og hef meðal annars fengið birt ljóð eftir mig í tímaritinu Són, búin að fá mína fyrstu ljóðabók útgefna, og er núna að leggja lokahönd á mína fyrstu skáldsögu. Að vera tilnefnd til Fjöruverðlaunanna kom einnig skemmtilega á óvart, en það er heilmikil viðurkenning og mikil hvatning til þess að halda áfram,“ segir Ester.

„Nú er ég komin hringinn og flutt aftur á æskuslóðirnar í Þingeyjarsveit, enda hvergi betra að vera. Ég er mikið náttúrubarn. Mér líður best úti og þá helst niðri við Laxá með veiðistöng, eins og ég á kyn til, og gott kaffi á brúsa,“ segir hún og að það séu alger forréttindi að geta veitt börnunum sínum það frelsi og öryggi sem sveitin veitir.

„Það fylgir minni samfélögum að fólk stendur ofboðslega þétt saman og mér finnst það alveg ómetanlegt. Það er gott að vera komin aftur heim.“

500 ml kalt vatn.

Hálfur bolli salt.

Handfylli af blygðun.

Sletta af skömm.

Einn desilíter af óskhyggju

að andskotans bletturinn náist úr.

E.H.

Spurð hvort hún hafi upplifað ólíkt viðmót varðandi blæðingar á öllum þeim stöðum sem hún hefur búið á segir hún að í Hong Kong hafi verið meiri feimni en það sem ólíkast hafi verið á stöðunum séu sjálfar tíðavörurnar.

„Ég fór einhvern tímann í búðina til að kaupa dömubindi og tók þá eftir því að það væri hvíttunarefni í þeim. Það eru margir þar auðvitað alltaf að lýsa húðina en mér brá að sjá það í dömubindum líka. Svo eru alltaf ilmefni og þannig er skömminni troðið svo víða. Manni finnst eins og spjótunum sé beint að manni úr ólíklegustu áttum með þetta.“

Ilmefnin óþolandi

Hún segir svo reynsluna í Skotlandi hafa verið allt aðra.

„Þau eru fyrsta þjóðin til að bjóða upp á ókeypis tíðavörur í almenningsrýmum og voru ekkert feimin með þetta.“

Áttu einhverjar uppáhalds tíðavörur?

„Bara sem hreinastar og einfaldastar. Ég mæli alltaf með Natracare. Án þess að vera að auglýsa það eitthvað sérstaklega. Mér finnst svo mikið bull þegar það er búið að troða einhverju ilmefni og einhverju drasli í þessar vörur. Það er bara eitthvað sem getur þá rústað í manni flórunni, og fyrir hvern? Þannig maður sé ekki óþægilegur fyrir aðra í kringum sig?“

En er einhver ákveðin rútína? Eitthvað sem þú gerir alltaf eða langar alltaf í?

„Það er bara alltaf súkkulaði og kaffi. Það bregst ekki,“ segir Ester og segir eitt ljóðið í bókinni einmitt fjalla um það.

„Maður notar öll trixin í bókinni til að komast í gegnum þetta þegar þetta bankar upp á.“

Bókin er fyrsta útgefna bók Esterar og hún viðurkennir að Fjöruverðlaunaviðurkenningin hafi komið henni skemmtilega á óvart.

„Ég er óþekkt skáld með mitt fyrsta verk. Þetta er heilmikil hvatning og viðurkenning til að halda áfram. En líka dálítil pressa á næsta verk,“ segir Ester og hlær en hún vinnur núna að sinni fyrstu skáldsögu samhliða vinnu og uppeldi barna.

„Ég er að leggja lokahönd á mína fyrstu skáldsögu. Planið er að loka mig af með konfektkassa um jólin,“ segir Ester sem vill ekkert gefa upp um yrkisefnið.

„Það kemur í ljós en ég er búin að þvælast um heiminn og búa erlendis í fimmtán ár. Ég er búin að safna eldivið og er núna komin með nóg og sit við tölvuna og skrifa bara.“

Megi Guð vera með fólki

á öðrum degi blæðinga.

Megi parkódínið vera sterkt

og súkkulaðið sætt.



Megi hitapokinn virka

og lakið sleppa.

Megi sófinn vera mjúkur

og klósettpappírinn duga.

E.H.


Tengdar fréttir

Bók um blæðingar „líka fyrir okkur karlpungana til að lesa“

Bóksali á Suðurlandi er viss um að jólin verði góð jólabók en viðurkennir þó að lestur jólabóka hafi minnkað og þar kennir hann snjallsímunum um. Bóksalinn gefur út 30 bækur fyrir jólin, meðal annars bók um blæðingar kvenna, sem hefur nú þegar verið tilnefnd til verðlauna.

Níu bækur tilnefndar til Fjöruverðlaunanna

Níu bækur voru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna, bókmenntaverðlauna kvenna og kvára á Íslandi við athöfn á Borgarbókarsafninu í miðbæ Reykjavíkur í dag. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×