Umræðan

Að birta fjár­hags­upp­lýsingar á undan árs­reikningi

Baldur Thorlacius skrifar

Einn mikilvægasti tímapunkturinn í fjárfestatengslum skráðra félaga er þegar þau birta fjárhagsupplýsingar fyrir árið. Fjárfestar bíða í ofvæni eftir að sjá rekstrarniðurstöðu ársins dregna saman, með umfjöllun um helstu áhrifaþætti og jafnvel horfur á komandi misserum. Hér á landi hefur yfirleitt verið horft á birtingu fjárhagsupplýsinga og ársreikning sem sama hlutinn. Þannig er það samt ekki erlendis.

Tilgangurinn með birtingu fjárhagsupplýsinga er að koma áreiðanlegum og gagnlegum upplýsingum um reksturinn til fjárfesta. Það skiptir fjárfesta máli að fá fjárhagsupplýsingar sem fyrst og af sömu ástæðu vilja skráð félög helst koma þeim út eins fljótt og mögulegt er. Á hinn bóginn eru ýmsar upplýsingar í sjálfum ársreikningnum sem kalla ekki á að þær séu birtar 1, 2 og 3.

Erlent verklag

Erlendis birta skráð félög því gjarnan fjárhagsupplýsingar fyrst (e. financial statement release) til að svala þorsta fjárfesta, sem veitir þeim svo aukið svigrúm til að vinna í og birta sjálfan ársreikninginn. Endurskoðun ársreiknings er samt yfirleitt vel á veg komin þegar birting fjárhagsupplýsinga á sér stað og því hafa stjórnendur ágætis vissu fyrir því að allar helstu upplýsingar séu réttar. Afkomufundir eru svo haldnir við birtingu fjárhagsupplýsinga, ekki ársreikningsins.

Það skiptir fjárfesta máli að fá fjárhagsupplýsingar sem fyrst og af sömu ástæðu vilja skráð félög helst koma þeim út eins fljótt og mögulegt er.

Þetta er almennt venjan á hinum Norðurlöndunum og eflaust víðar í Evrópu. Sömu sögu er að segja um bandaríska markaðinn. Ég tók t.d. saman upplýsingar um birtingu fjárhagsupplýsinga og birtingu ársreikninga á finnska markaðnum fyrir reikningsárið 2022. Til einföldunar tók ég einungis þau félög sem voru með jan-des reikningsár. Þar voru félög að meðaltali að birta fjárhagsupplýsingar um miðjan febrúar. Sjálfur ársreikningurinn var svo að meðaltali birtur þremur vikum síðar, í annarri vikunni í mars. Önnur vikan í apríl var svo algengust fyrir aðalfund, sem þýðir að það liðu að jafnaði fjórar vikur frá birtingu ársreiknings fram að aðalfundi.

Til samanburðar voru íslensk félög með jan-des reikningsár að meðaltali að birta ársreikninginn á sama tíma og þau finnsku birtu fjárhagsupplýsingar fyrir árið. Þremur vikum áður en kollegar þeirra í Finnlandi birtu sjálfan ársreikninginn. Stjórnendur og starfsmenn íslenskra almenningshlutafélaga, sem og endurskoðendur þeirra, hafa því líklega verið undir meiri pressu en þeir erlendu til að klára fullbúinn ársreikning.

Flækjustigið að aukast

Eins og ég nefndi hér að ofan hefur ársreikningur að geyma ýmsar gagnlegar upplýsingar sem gætu þolað meiri bið en helstu fjárhagsupplýsingar, þó það eigi vissulega að birta ársreikninginn eins fljótt og auðið er og eigi síðar en fjórum mánuðum frá lokum reikningsársins. Á komandi árum munu fleiri gerðir upplýsinga bætast við þann lista. Á næsta ári verður það flokkunarreglugerð Evrópusambandsins (e. EU Taxonomy). Árið þar á eftir ófjárhagslega upplýsingagjöfin / sjálfbærniupplýsingagjöfin skv. CSRD reglugerðinni. Það er því alltaf að verða erfiðara fyrir félögin að ganga frá og birta fullbúinn ársreikning án þess að það komi niður á tímanlegri birtingu mikilvægustu upplýsinganna og/eða gæðum.

Stjórnendur og starfsmenn íslenskra almenningshlutafélaga, sem og endurskoðendur þeirra, hafa líklega verið undir meiri pressu en þeir erlendu til að klára fullbúinn ársreikning.

Svarið við þessu gæti verið að íslensk félög tileinkuðu sér þær aðferðir sem eru notaðar á erlendum mörkuðum. Birta fyrst helstu fjárhagsupplýsingar og síðar sjálfan ársreikninginn. Venjan á Norðurlöndunum er að ársuppgjör innihaldi að lágmarki sömu upplýsingar og krafist er í árshlutareikningi (IAS 34). Nú er tíminn til að skoða þessi mál.

Höfundur er framkvæmdastjóri sölu- og viðskiptatengsla hjá Nasdaq Iceland.




Umræðan

Sjá meira


×