Við frumvarp til fjárlaga árið 2024 lagði allsherjar- og menntamálanefnd til að sá hópur listamanna sem tilgreindur er í fjárlögum fyrir árið 2021 og fjárlögum fyrir árið 2023, að viðbættum Kristjáni Jóhannssyni, njóti heiðurslauna listamanna.
Þá kemur fram að við fjárlög fyrir árið 2023 hafi fjórir bæst við þann hóp listamanna sem njóti heiðurslauna, en á árinu 2023 lést Guðbergur Bergsson rithöfundur, sem var í hópi þeirra sem nutu launanna. Með breytingartillögunni var lagt til að einn listamaður bætist við þann hóp listamanna sem nýtur heiðurslauna, sem sagt Kristján Jóhannesson óperusöngvari.
Tillagan var samþykkt í dag en 45 greiddu atkvæði með henni og enginn gegn henni. Tveir greiddu ekki atkvæði og sextán voru fjarstaddir.
Kristján Jóhannsson er einn fremsti óperusöngvari landsins. Hann var gestur í Bítinu fyrr á árinu og ræddi baráttu sína við krabbamein sem hann sagðist læknaður af.
Hér að neðan má sjá flutning Kristjáns á aríunni Nessum Dorma í framleiðslu Geirs Ólafssonar.