KR-ingar sögðu upp samningi sínum við Bandaríkjamanninn Troy Cracknell fyrr í vikunni, þrátt fyrir stórleik leikmannsins í hans síðasta leik fyrir félagið. Cracknell skoraði 58 stig og tók tíu fráköst í 123-99 sigri KR gegn Þrótti Vogum í 16-liða úrslitum VÍS-bikars karla síðastliðinn mánudag.
Nimrod Hilliard IV er hins vegar genginn í raðir KR-inga í hans stað, en félagið greinir frá tíðindunum á heimasíðu sinni.
Þar kemur meðal annars fram að Hiliard sé þrítugur bandarískur bakvörður sem eigi að baki glstan feril í Evrópuboltanum.
Hilliard hefur meðal annars leikið með liðum í Danmörku, Svíþjóð og Þýskalandi og var hann valinn verðmætasti leikmaður úrslitakeppninnar í Danmörku er hann varð danskur meistari með Horsens á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku.
Þá hefur Hilliard leikið með tveimur úr þjálfarateymi KR á ferli sínum. Hann lék með Jakob Erni Sigurðarsyni hjá Boras í sænsku deildinni og Adama Darboe með Bakken Bears í dönsku deildinni þar sem þeir félagar urðu danskir meistarar saman.