Körfubolti

Um­mælin dauð og ó­merk en miska­bætur og máls­kostnaður detta út

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hugi Halldórsson baðst afsökunar á ummælum sínum um Srdan Stojanovic.
Hugi Halldórsson baðst afsökunar á ummælum sínum um Srdan Stojanovic. vísir/bára

Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness um að ummæli Huga Halldórssonar í garð körfuboltamannsins Srdans Stojanovic séu dauð og ómerk. Hugi þarf hins vegar ekki að greiða Srdan miskabætur.

Þann 2. maí 2021 ýjaði Hugi að því í hlaðvarpinu The Mike Show að Stojanovic hefði verið flæktur í veðmálasvindl. Hann sagði jafnframt að fyrir leik Þórs Ak. gegn Njarðvík, sem tapaðist 97-75, hafi verið haldinn krísufundur þar sem rætt var við hann.

... það hafi verið krísufundur klukkutíma fyrir leik þar sem upp hafi komist um veðmálasvindl hjá Þór Akureyri. Og ákveðinn leikmaður og ég held að það sé allt í lagi að ég nefni það bara að það hafi verið tekinn fundur með Srdan Stojanovic … og þar hafi bara liðið komist að þessu

Ummælin hér að ofan, sem Hugi lét falla í þættinum, voru dæmd dauð og ómerk í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra. Sá dómur var svo staðfestur í Landsrétti í dag.

Hugi þarf aftur á móti ekki að greiða Srdan miskabætur upp á 150 þúsund krónur eins og dómur Héraðsdóms sagði til um. Srdan fór fram á 1,5 milljón í miskabætur en því var hafnað.

Málskostnaður upp á milljón dettur einnig út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×