Þetta segir í tilkynningu frá Icelandair um verkfallið. Samningaviðræður Félags flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Isavia, runnu út í sandinn í gær og annar fundur ekki boðaður fyrr en síðdegis á morgun. Því er ljóst að til vinnustöðvunar kemur klukkan 04 í nótt.
„Verkfallið mun hafa þó nokkur áhrif á flugáætlun Icelandair. Þannig mun flugi sem er á áætlun snemma í fyrramálið frá Norður-Ameríku til Íslands og frá Íslandi til Evrópu seinka. Sömuleiðis mun verkfallið hafa keðjuverkandi áhrif á flug síðdegis, bæði frá Evrópu til Íslands og frá Íslandi til Norður-Ameríku og Evrópu. Starfsfólk Icelandair fylgist náið með stöðunni og mun hafa samband við farþega með hefðbundnum samskiptaleiðum ef breyting verður á flugi,“ segir í tilkynningu.
Við breytingar á flugáætlun hafi starfsfólk Icelandair það að markmiði að allir farþegar komist á áfangastað innan sama ferðadags og að halda keðjuverkandi áhrifum á flugáætlunina í lágmarki. Flugáætlunin 14. desember sé umfangsmikil og gert sé ráð fyrir að verkfallsaðgerðirnar hafi áhrif á um sextíu flugferðir og þar með ferðalög um 8.300 farþega Icelandair.
„Farþegum er þökkuð þolinmæðin og bent á að fylgjast vel með þeim skilaboðum sem félagið sendir auk þess sem hægt er að fylgjast með á vef félagsins undir bókunin mín og í Icelandair appinu. Ekki er þörf á að hafa samband við Icelandair nema ný ferðaáætlun falli ekki að ferðalaginu.“
Yfirlit yfir helstu aðgerðir Icelandair:
- Flug frá Norður-Ameríku sem átti að lenda um og upp úr klukkan sex í fyrramálið er nú á áætlun á milli 10:30-11:00.
- Flug til Evrópu sem átti að fara í loftið á bilinu 7:20-8:40 er nú á áætlun á milli klukkan 09:45-11:45.
- Flug til London Gatwick í fyrramálið verður sameinað flugi til London Heathrow.
- Tvær ferðir til Amsterdam verða sameinaðar.
- Flugi til Frankfurt og Berlínar verður aflýst og farþegar endurbókaðir í gegnum Munchen og Zurich.
- Flugi til Stokkhólms og Óslóar verður aflýst og farþegar endurbókaður í gegnum Helsinki.
- Í vikunni hefur farþegum sem eiga bókað flug á verkfallsdögum verið boðið að færa flugið sitt og ferðast þannig einum degi fyrr eða síðar.
- Hluti tengifarþega hefur verið endurbókaður með öðrum flugfélögum á milli Evrópu og Norður-Ameríku.
- Morgunflugi til Akureyrar er aflýst og farþegum boðið að ferðast með öðru flugi innan dagsins.
- Morgunflugi til Egilsstaða seinkar.