Körfubolti

Bræður réðust á körfuboltaþjálfara sem setti þann yngri á bekkinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Körfuboltaþjálfari í Texas fór mjög illa út úr fundi sínum við leikmann sinn á bílastæði eftir leik.
Körfuboltaþjálfari í Texas fór mjög illa út úr fundi sínum við leikmann sinn á bílastæði eftir leik. Getty/Michael Dodge

Tveir bræður frá Texas voru handteknir fyrir að ráðast á þjálfara á skólabílastæði eftir körfuboltaleik.

Jevin Allen lék með skólaliði Willis High School en eldri bróðir hans, Jarrick Allen, mætti með honum til móts við þjálfarann. Jevin er 17 ára en Jarrick er 22 ára.

Þjálfarinn hafði sett Jevin á bekkinn fyrir slæma hegðun í leiknum og strákurinn var allt annað en ánægður með það.

Hann mætti með fjölskyldu sinni út á bílastæði eftir leikinn og ætlaði að fara yfir málin með þjálfaranum. Þeir biðu eftir því að þjálfarinn kæmi út.

Jevin byrjaði á því að rífast við þjálfarann en sló hann svo í andlitið. Þá kom eldri bróðirinn og blandaði sér í málið. Þjálfarinn fékk að finna fyrir því og slasaðist á höfði, hálsi, andliti og handleggjum.

Vitni og eftirlitsmyndavélar studdu við lýsingu þjálfarans á atburðarásinni og í framhaldinu voru bræðurnir handteknir og ákærðir fyrir líkamsárás.

Þjálfarinn er að jafna sig á meiðslunum og Jevin Allen er ekki lengur nemandi við skólann.

Skólinn er í Conroe sem er 95 þúsund manna borg norður af Houston.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×