Innlent

Stefnir í mikla röskun á millilanda- og innan­lands­flugi á morgun

Heimir Már Pétursson skrifar
Áætlanir Icelandair og Play á morgun munu væntanlega riðlast mikið komi til aðgerða flugumferðarstjóra.
Áætlanir Icelandair og Play á morgun munu væntanlega riðlast mikið komi til aðgerða flugumferðarstjóra. vísir

Komur og brottfarir rúmlega fjörutíu flugvéla raskast á Keflavíkurflugvelli og allt innanlandsflug liggur niðri frá klukkan fjögur í fyrrramálið til klukkan tíu, náist ekki samningar í kjaradeilu flugumferðarstjóra við Ísavia í dag. Formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra segir frekari aðgerðir í undirbúningi.

Félagið hefur nú þegar boðað tvennar vinnustöðvanir. Hin fyrri er eins og áður segir frá klukkan fjögur næstu nótt til klukkan tíu í fyrramálið og sams konar aðgerðir aftur næst komandi fimmtudag. Arnar Hjálmarsson formaður félagsins segir að flugumferðarstjórar á aðflugssvæði Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkurflugvallar muni að óbreyttu leggja niður störf.

Arnar Hjálmsson formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra er ekki bjartsýnn á að samningar takist í dag.aðsend

„Og það mun væntanlega riðla allri áætlun flugfélaga sem er inn á þessu tímabili.“

Þannig að það verður ekki hægt að lenda og taka á loft frá Keflavík- og Reykjavíkurflugvelli á þessum tíma?

„Nei. Ekki eins og staðan er núna.“

En hvað um yfirflug sem þið stjórnið líka?

„Því er áfram sinnt. Þessar vinnustöðvanir hafa engin áhrif á það,“ segir Arnar. Starfsemin í Alþjóðaflugstjórnarmiðstöðinni á Reykjavíkurflugvelli raskt því ekki.

Hins vegar eru áætlaðar 24 brottfarir flugfélaga frá Keflavíkurflugvelli og 20 komur flugvéla á þeim tíma sem vinnustöðvunin nær til. Það mun væntanlega setja allar áætlanir flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli og innanlandsflugsins frá Reykjavík á morgun úr skorðum komi aðgerðirnar til framkvæmda. Félagið veitir hins vegar undanþágur fyrir allt sjúkraflug og flug Lanshelgisgæslunnar.

Ferðaáætlanir þúsunda manna gætu raskast á morgun vegna tímabundinna aðgerða flugumferðarstjóra.Vísir/Vilhelm

Samninganefndir Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Ísavia koma til fundar hjá Ríkissáttasemjara klukkan tvö í dag en síðasti fundur var á föstudag. Arnar segir stöðuna ekki hafa breyst mikið síðan þá.

„Við höfum ekkert fundað um helgina, ekki á sameiginlegum vettvangi. Ég geri ráð fyrir að þau hafi eitthvað ráðið ráðum sínum og við höfum gert það sama. En ekkert á sameiginlegum vettvangi þannig að ég met hana bara svipaða og á föstudaginn,“ segir Arnar Hjálmarsson.

Atkvæði hafi verið greidd um enn frekari aðgerðir og verði niðurstöður þeirrar atkvæðagreiðslu ljósar í dag. Flugumferðarstjórar væru tæpu ári á eftir almenna vinnumarkaðnum með sína samninga og því væri verið að semja um hluti sem samið var um á almenna markaðnum í desember í fyrra.

Síðasti samningur þeirra hafi verið gerður um mánaðamóti ágúst-september 2021 og runnið út 30. september síðast liðinn.


Tengdar fréttir

Enn reynt að ná utan um lausa þræði

Flugumferðarstjórar munu enn að óbreyttu leggja niður störf á þriðjudag og fimmtudag í næstu viku. Samninganefndir Félags flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins funduðu í tvo klukkutíma hjá ríkissáttasemjara í gær en samtökin fara með samningsumboð Isavia í deilunni.

Gæfi flugumferðarstjórum kartöflu í skóinn

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir fráleitt að flugumferðarstjórar boði nú til þriðja verkfallsins á fimm árum á meðan unnið sé að gerð nýrrar þjóðarsáttar á meðal allra aðila vinnumarkaðarins.

Flugumferðarstjórar boða til verkfalls í næstu viku

Flugumferðarstjórar munu að óbreyttu leggja niður störf á þriðjudags- og fimmtudagsmorgun í næstu viku. Samningar milli þeirra og Isavia hafa verið lausir í rúma tvo mánuði og formaður Félags flugumferðarstjóra segir enn töluvert bera í milli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×