Félagið hefur nú þegar boðað tvennar vinnustöðvanir. Hin fyrri er eins og áður segir frá klukkan fjögur næstu nótt til klukkan tíu í fyrramálið og sams konar aðgerðir aftur næst komandi fimmtudag. Arnar Hjálmarsson formaður félagsins segir að flugumferðarstjórar á aðflugssvæði Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkurflugvallar muni að óbreyttu leggja niður störf.

„Og það mun væntanlega riðla allri áætlun flugfélaga sem er inn á þessu tímabili.“
Þannig að það verður ekki hægt að lenda og taka á loft frá Keflavík- og Reykjavíkurflugvelli á þessum tíma?
„Nei. Ekki eins og staðan er núna.“
En hvað um yfirflug sem þið stjórnið líka?
„Því er áfram sinnt. Þessar vinnustöðvanir hafa engin áhrif á það,“ segir Arnar. Starfsemin í Alþjóðaflugstjórnarmiðstöðinni á Reykjavíkurflugvelli raskt því ekki.
Hins vegar eru áætlaðar 24 brottfarir flugfélaga frá Keflavíkurflugvelli og 20 komur flugvéla á þeim tíma sem vinnustöðvunin nær til. Það mun væntanlega setja allar áætlanir flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli og innanlandsflugsins frá Reykjavík á morgun úr skorðum komi aðgerðirnar til framkvæmda. Félagið veitir hins vegar undanþágur fyrir allt sjúkraflug og flug Lanshelgisgæslunnar.

Samninganefndir Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Ísavia koma til fundar hjá Ríkissáttasemjara klukkan tvö í dag en síðasti fundur var á föstudag. Arnar segir stöðuna ekki hafa breyst mikið síðan þá.
„Við höfum ekkert fundað um helgina, ekki á sameiginlegum vettvangi. Ég geri ráð fyrir að þau hafi eitthvað ráðið ráðum sínum og við höfum gert það sama. En ekkert á sameiginlegum vettvangi þannig að ég met hana bara svipaða og á föstudaginn,“ segir Arnar Hjálmarsson.
Atkvæði hafi verið greidd um enn frekari aðgerðir og verði niðurstöður þeirrar atkvæðagreiðslu ljósar í dag. Flugumferðarstjórar væru tæpu ári á eftir almenna vinnumarkaðnum með sína samninga og því væri verið að semja um hluti sem samið var um á almenna markaðnum í desember í fyrra.
Síðasti samningur þeirra hafi verið gerður um mánaðamóti ágúst-september 2021 og runnið út 30. september síðast liðinn.