Fótbolti

„Sancho veit hvað hann þarf að gera til að snúa aftur“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jadon Sancho hefur ekki fengið að spila né æfa með aðalliði Manchester United síðan í september.
Jadon Sancho hefur ekki fengið að spila né æfa með aðalliði Manchester United síðan í september. Catherine Ivill/Getty Images

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Jadon Sancho viti hvað hann þurfi að gera til að fá að snúa aftur í liðið.

Sancho hefur ekki fengið að spila né æfa með aðalliði Manchester United síðan hann sagði að hann hafi verið gerður af blóraböggli eftir að hann var skilinn eftir utan hóps í tapi liðsins gegn Arsenal í upphafi tímabils. Ten Hag hafði áður sagt að leikmaðurinn hafi verið skilinn eftir utan hóps vegna frammistöðu hans á æfingum.

„Sancho veit hvað hann þarf að gera til að snúa aftur, það er undir honum komið,“ sagði Ten Hag á blaðamannafundi í gær.

Aðspurður að því hvort tími Sancho hjá United væri liðinn endurtók Ten Hag fyrra svar sitt, en leikmaðurinn hefur verið orðaður við brottför frá félaginu í janúar.

„Við vitum ekki hvað mun gerast þá, en hann veit hvað hann þarf að gera. Ef hann vill snúa aftur er það undir honum sjálfum komið. Þetta snýst um menningu innan klúbbsins og allir leikmenn þurfa að sýna ákveðinn metnað. Það er það sem þetta snýst um.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×