Tríóið í Blökastinu, þeir Auddi, Steindi og Egill ætla að hafa það huggulegt á náttfötunum og hvetja áhorfendur til að gera slíkt hið sama. Þeir ætla að opna yfir 60 jólapakka og fyrir hvern pakka draga þeir út heppinn áskrifanda sem fær pakkann.
„Það sem gerir þetta skemmtilegt er að hver áskrifandi fær númer og við segjum nafnið á áskrifandanum áður en við opnum pakkann. Svo opnum við hann í beinni og allir geta fylgst með,“ segir Auddi í samtali við Vísi.
Strákarnir vita ekki hvað er í meiri hlutanum af pökkunum en jólaálfarnir sem eru búnir að safna og pakka inn lofa risagjöfum sem áskrifendum gefst kostur á að fá. Allt frá flugferðum yfir í dót úr bílskúrnum hans Steinda. Eina sem þarf að gera til þess að eiga möguleika á að fá gjöf er að gerast áskrifandi að Blökastinu hér.
„Í fyrra þá voru pakkarnir svo mismunandi, við kannski opnuðum pakka með flugferð fyrir tvo og svo var næsti pakki bara 90 þúsund króna rafmagnssög,“ segir hann.
Tónlistarmennirnir Prettyboitjokkó og Emmsjé Gauti ætla að taka lagið og skemmta áhorfendum.
„Það er tilvalið fyrir alla að eiga kósý-stund saman fyrir framan sjónvarpið á sunnudagskvöldið. Það er ekkert meira kósý í jólaundirbúningnum en að eiga notalega stund með fólkinu sínu. Það má drekka kakó, rauðvín eða hvað sem er, okkur er alveg sama hvað fólk drekkur,“ segir hann.
En hvað með þá sjálfa, verða þeir með kakó? „Ef ég þekki mína menn rétt þá verður jólaglögg, og að sjálfsögðu heitt kakó líka,“ segir hann að lokum.
Litlu jól Blökastsins hefjast á sunnudagskvöldið klukkan 19:30 og verða í beinni á Vísi og Stöð 2 Vísi.