Körfubolti

LeBron frá­bær og Lakers í úr­slita­leikinn í Vegas

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Anthony Davis fagna sigri Los Angeles Lakers í nótt.
LeBron James og Anthony Davis fagna sigri Los Angeles Lakers í nótt. AP/Ian Maule

LeBron James fór fyrir sínum mönnum í Los Angeles Lakers í nótt þegar liðið tryggði sér sæti í fyrsta úrslitaleik NBA deildarbikarsins en úrslitin fara fram í Las Vegas.

Báðir undanúrslitaleikirnir voru í Las Vegas í nótt. Lakers vann sannfærandi 44 stiga sigur á New Orleans Pelicans, 133-89, en í hinum leiknum vann Indiana Pacers óvæntan 128-119 sigur á Milwaukee Bucks.

James heldur upp á 39 ára afmælisdaginn sinn eftir nokkrar vikur en það er magnað að sjá kappann enn með yfirburði inn á körfuboltavellinum.

James var með 30 stig, 8 stoðsendingar og 5 fráköst í leiknum. Þetta er hans 21. tímabil í NBA-deildinni. Í leiknum í nótt hitti hann úr 9 af 12 skotum sínum þar af öllum fjórum skotunum fyrir utan þriggja stiga lína. Hann þurfti bara 23 mínútur til að skila þessum tölum.

„Við erum að fá tilfinningu fyrir því hvernig lið við þurfum að verða ef við ætlum að vinna körfuboltaleiki, að ná upp stöðugleika. Varnarleikurinn er allur að koma til og ef við verjumst vel þá getum við unnið á hverju kvöldi,“ sagði LeBron James. Þetta var ellefti sigur liðsins í síðustu fimmtán leikjum.

Austin Reaves skoraði 17 stig fyrir Lakers og Anthony Davis var með 16 stig og 15 fráköst. Trey Murphy III skoraði mest fyrir Pelicans eða 14 stig en Zion Williamson var bara með 13 stig.

Tyrese Haliburton hjá Indiana Pacers, er líka að spila frábærlega í þessari í keppni og í nótt var hann með 27 stig og 15 stoðsendingar í sigri Indiana í undanúrslitaleiknum.

„Við erum að spila körfubolta eins og á að spila hann og við erum að sjokkera heiminn. Við ætlum að halda því áfram,“ sagði Tyrese Haliburton.

Myles Turner var með 26 stig og 10 fráköst, Obi Toppin skoraði 14 stig og Isaiah Jackson var með 11 stig.

Giannis Antetokounmpo skoraði 37 stig og tók 10 fráköst hjá Bucks og Damian Lillard skoraði 24 stig. Khris Middleton var síðan með 20 stig og Brook Lopez skoraði 18 stig.

Ekki slæmar tölur hjá byrjunarliðsmönnum Bucks en það voru varamenn Indiana sem gerðu útslagið en liðið vann stigin af bekknum 43-13.

Úrslitaleikurinn fer fram eftir miðnætti á laugardagskvöldið að íslenskum tíma og verður hann sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×