Körfubolti

Þórsarar mörðu Suðurlandsslaginn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Þórsarar fögnuðu sigri í kvöld.
Þórsarar fögnuðu sigri í kvöld. Vísir/Bára Dröfn

Þór Þorlákshöfn vann nauman sex stiga sigur er liðið tók á móti stigalausum Hamarsmönnum í Suðurlandsslag Subway-deildar karla í körfubolta í kvöld, 86-80.

Lengst af leit ekki út fyrir að leikurinn yrði jafn og spennandi og höfðu heimamenn í Þór átta stiga forskot þegar fyrsta leikhluta lauk.

Þórsarar höfðu svo öll völd á vellinum í öðrum leikhluta og náðu mest 22 stiga forskoti. Gestirnir klóruðu þó örlítið í bakkann fyrir hálfleikshléið og munurinn var 18 stig þegar liðin gengu til búningsherbergja, staðan 53-35.

Dæmið snérist þó við í þriðja leikhluta og gestirnir frá Hveragerði voru sterkari aðilinn eftir hlé. Hamarsmenn skoruðu 27 stig í leikhlutanum og héldu heimamönnum í aðeins 14 stigum og því var munurinn kominn niður í fimm stig þegar komið var að lokaleikhlutanum.

Gestirnir náðu loksins að jafna metin í stöðunni 72-72 þegar stutt var eftir af leiknum, en þá vöknuðu heimamenn loks til lífsins á ný og unnu lokamínútur leiksins með sex stiga mun og niðurstaðan varð 86-80 sigur Þórs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×