Neytendur

Mikil­vægt að kynna sér „falinn kostnað“ skammtímalána

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jónas segir engar opinberar tölur til um heildaraukingu skammtímalána í desember en segir jólavertíðina og útsölur meðal annars sjást í aukinni greiðsludreifingu.
Jónas segir engar opinberar tölur til um heildaraukingu skammtímalána í desember en segir jólavertíðina og útsölur meðal annars sjást í aukinni greiðsludreifingu.

Fólk getur sparað allnokkrar fjárhæðir með því að horfa ekki bara á vexti þegar það tekur skammtímalán, heldur einnig svokallaða „árlega hlutfallstölu kostnaðar“, eða ÁHK.

ÁHK er raunverulegur heildarkostnaður lánsins, segir Jónas R. Stefánsson, sérfræðingur á einstaklingssviði Landsbankans, og getur numið allt að 44,25 prósentum.

„ÁHK er í raun bara verðmiðinn á láninu og þetta á nú kannski einna mest við neyslulánin, þar sem þessi tala getur verið sérstaklega há; þessi aðgengilegu lán sem er auðvelt að taka... í appi, símanum eða bara þegar þú ert í verslun að kaupa vörur, þá er oft boðið upp á þetta yfir borðið, við kassann,“ segir Jónas.

Um sé að ræða til að mynda greiðsludreifingu af ýmsu tagi, smálán og yfirdrátt. Umrædd lán séu í mörgum tilvikum tekin undir tímapressu, jafnvel í miðri verslun, og fólk ekki endilega að kynna sér hinn „falda kostnað“.

Jónas segir það hins vegar geta margborgað sig að forvitnast um raunverulega heildarkostnað, eða ÁHK, sem lánveitendum ber að gefa upp.

Fjallað er um málið á vefsíðu Landsbankans þar sem tekin eru nokkur raunveruleg dæmi um skammtímalán. 

Þar segir meðal annars frá greiðsludreifingu vegna vörukaupa þar sem lánsupphæðin er 200 þúsund krónur, lánstíminn sex mánuðir, vextirnir 18,65 prósent, lántökukostnaðurinn 4.885 krónur og svokallað greiðslu- eða afborgunargjald 898 krónur. 

Árlegur hlutfallstölu kostnaður lánsins er 44,2 prósent.

Þá segir einnig frá láni sem veitt er í appi, þar sem lánsupphæðin er 500 þúsund krónur, lánstíminn tólf mánuðir, vextirnir 16,35 prósent, lántökukostnaðurinn núll og greiðslu- eða afborgunargjaldið 140 krónur.

Þar er ÁHK 25 prósent.

Raunveruleg dæmi um skammtímalán af vef Landsbankans.

Betra að vera með færri lán en fleiri og yfirdrátturinn ekki endilega verstur

„Okkur ber skylda til að upplýsa um þetta og þetta á að vera í öllu upplýsingarefni,“ segir Jónas um ÁHK. Hámarks ÁHK samkvæmt lögum sé 35 prósent en þá eigi eftir að bæta við stýrivöxtum. Hámarkið í dag sé þannig 44,25 prósent.

Jónas segir þetta ansi hátt og að hliðarkostnaðurinn við lánveitingar geti verið lúmskur, til að mynda afgreiðslu- og afborgunargjöld. Þannig geti yfirdráttarlaun, eins oft og þau séu töluð niður, verið töluvert hagkvæmari en önnur skammtímalán.

Þar sé aðeins borgað eftir notkun og ekki verið að innheimta umrædd afgreiðslu- eða afborgunargjöld.

„Fyrir suma getur það verið mun hagkvæmara,“ segir Jónas.

Þá sé einnig vert að hafa í huga að það sé töluvert betra að vera með færri skammtímalán en fleiri, þar sem umsýslugjöldin séu þá færri eftir því. Það geti jafnvel borgað sig að sameina nokkur lán í eitt.

„Aðilum á þessum markaði hefur fjölgað og aðgengið er orðið miklu meira en það var og auðveldara að fá lánin. Þannig að það er um að gera fyrir fólk að vera vakandi fyrir þessu og gefa sér tíma, ef það þarf að fjárfesta í einhverju sérstaklega,“ segir Jónas.

Auðvitað lendi fólk í því að þurfa að fjármagna skyndileg útgjöldi á borð við nýja þvottavél eða annað slíkt og þá sé gott að leggjast yfir málin. Önnur útgjöld, á borð við dýran fatnað eða annað slíkt væri ef til vill betra að bíða með.

Þetta sé ekki síst ágæt lexía fyrir yngri kynslóðirnar.

„Ég segi nú stundum við dóttur mína; hvað ertu lengi að vinna fyrir hlutnum?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×