Handbolti

Viktor Gísli lokaði markinu í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson varði fimmtán skot í marki Nantes í kvöld.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði fimmtán skot í marki Nantes í kvöld. HBC Nantes

Landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson varði fimmtán skot fyrir Nantes er liðið vann sjö marka sigur gegn Íslendingaliði Rhein-Neckar Löwen í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld, 32-25.

Nantes og Rhein-Neckar Löwen höfðu þegar tryggt sér efstu tvö sæti riðilsins fyrir leik kvöldsins, en toppsætið var þó undir.

Viktor og félagar höfðu yfirhöndina frá fyrstu mínútu og náðu mest fimm marka forskoti í fyrri hálfleik. Heimamenn leiddu með þremur mörkum í hálfleik, staðan 14-11.

Það sama var uppi á teningnum í síðari hálfleik þar sem heimamenn náðu mest níu marka forskoti. Eftir það var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda og Nantes fagnaði að lokum sjö marka sigri, 32-25.

Viktor Gísli Hallgrímsson átti frábæran leik í marki Nantes og varði 15 skot fyrir liðið, en Arnór Snær Óskarsson og Ýmir Örn Gíslason komust ekki á blað fyrir Rhein-Neckar Löwen.

Þá skoraði Orri Freyr Þorkelsson átta mörk fyrir Sporting í sex marka  sigri gegn CSM Constanta, 34-28, og Teitur Örn Einarsson skoraði sex í þrettán marka sigri Flensburg gegn Lovcen, 42-19. 

Stiven Tobar Valencia skoraði eitt mark fyrir Benfica er liðið vann fjögurra marka útisigur gegn Kristianstad, 27-31, en Tryggvi Þórisson komst ekki á blað fyrir Sävehof í jafntefli gegn Gorenje, 28-28. 

Að lokum skoraði Óðinn Þór Ríkharðsson fjögur mörk fyrir Kadetten Schaffhausen er liðið mátti þola fjögurra marka tap gegn Elverum, 31-27.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×