Matic gekk í raðir United frá Chelsea 2017. Hann fann mikinn mun á fagmennsku hjá félögunum tveimur.
„Hjá Chelsea hegðuðu leikmennirnir sér eins og atvinnumenn, voru stundvísir og aldrei seinir á æfingar en hjá United gerðist þetta nánast á hverjum degi,“ sagði Matic í viðtali við YouTube-síðuna YU Planet.
„Meðal leikmanna sem voru alltaf seinir voru Paul Pogba og Jadon Sancho. Við hinir sem vorum alltaf stundvísir vorum reiðir svo við settum á laggirnar eins konar aganefnd sem ég var yfir. Ég hengdi upp blað á vegginn með nöfnum þeirra sem voru seinir. Eitt tímabil söfnuðum við 75 þúsund pundum í sektir [rúmar þrettán milljónir íslenskra króna]. Við ætluðum að nota peninginn í að halda partí í London en gátum það ekki vegna covid.“
Pogba kom til United frá Juventus 2016. Hann sneri aftur til Juventus á frjálsri sölu í sumar. Pogba vann bæði deildabikarinn og Evrópudeildina á fyrsta tímabili sínu með United en var reglulega gagnrýndur fyrir slaka frammistöðu inni á vellinum.
United keypti Sancho frá Borussia Dortmund fyrir tveimur árum. Hann hefur lítið gert síðan hann kom til liðsins og er núna í frystikistunni hjá knattspyrnustjóranum Erik ten Hag eftir að hann gagnrýndi hann opinberlega.
Eftir tapið fyrir Newcastle United, 1-0, á laugardaginn voru leikmenn United harðlega gagnrýndir, meðal annars fyrir leti inni á vellinum. Meðal þeirra sem fékk fyrir ferðina var Marcus Rashford.
Enskir fjölmiðlar hafa svo greint frá því að stemmningin í búningsklefa United sé orðin ansi súr og allt að helmingur leikmannahópsins sé búinn að missa trúna á Ten Hag. Þeim finnst æfingarnar of erfiðar, leikskipulagið ekki nógu gott og eru ósáttir við meðferðina á Sancho.
United er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 24 stig eftir fjórtán leiki. Liðið tekur á móti Chelsea annað kvöld.