Eftirvæntingin er ekki síðri fyrir Stjörnupílunni sem fram fer annað kvöld, einnig í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, þar sem keppendur spreyta sig sem frægir eru fyrir allt annað en pílukast.
Í kvöld eru hins vegar engir nýliðar á ferð heldur þeir fjórir bestu sem eftir standa að lokinni riðlakeppni Úrvalsdeildarinnar. Helmingur hópsins er úr Grindavík og má því búast við góðum stuðningi Grindvíkinga á þessum viðsjárverðu tímum í sögu bæjarins.
Í undanúrslitunum mætast annars vegar Hörður Guðjónsson úr Pílufélagi Grindavíkur og Haraldur Birgisson úr Pílukastfélagi Hafnarfjarðar, og hins vegar Hallgrímur Egilsson úr Pílukastfélagi Reykjavíkur og Páll Árni Pétursson úr Pílufélagi Grindavíkur. Sigurvegarinn frá því í fyrra, Vitor Charrua, nær hins vegar ekki að verja titilinn.
Í undanúrslitunum í kvöld þarf að vinna fimm leggi til að komast í úrslitin, en í úrslitaleiknum þarf að vinna sex leggi.
Bein útsending kvöldsins hefst klukkan 21 á Stöð 2 Sport 5. Stjörnupílan er á morgun á Stöð 2 Sport klukkan 19:30.