Á dögunum var greint frá því að Calloway, sem varð á sínum tíma Íslandsmeistari með liði Vals, væri að mæta aftur til landsins og ganga til liðs við Íslandsmeistara Tindastól frá KB Peja.
Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, þekkir vel til leikmannsins en þeir spiluðu saman hjá Val á sínum tíma. Í samtali við Vísi sagði hann frá því hvernig Calloway hefði sett sig í samband við sig og sagðist Bandaríkjamaðurinn vera að losna undan samningi sínum við KB Peja.
Þessar vendingar komu á fullkomnum tíma fyrir Tindastól sem var í leit að styrkingu í leikmannahóp sinn.
Það leið hins vegar ekki að löngu þar til KB Peja sendi frá sér yfirlýsingu. Þar var greint frá því að Calloway hefði í skyndi yfirgefið félagið og farið frá Kósóvó án þess að ná samkomulagi um brotthvarf sitt.
Í niðurlagi yfirlýsingar félagsins segist það ætla að leita réttar síns.
Dagur Þór Baldvinsson er formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls. Calloway er mættur á Sauðárkrók, þó án þess að vera kominn með leikheimild en forráðamenn félagsins eru rólegir yfir stöðu mála.
„Umboðsmaður Calloway er að vinna í þessum málum. Félagið braut hans samning náttúrulega bara algjörlega. Hann er með allan rétt sín megin. Við erum bara að vinna í þessu,“ segor Dagir aðspurður um stöðu mála varðandi leikmanninn.
Þið eruð ekki hræddir um að félagsskiptin falli upp fyrir?
„Ég hef ekki trú á því nei. En það kemur bara í ljós.“
Hvenær bindið þið vonir við að Calloway geti hafið leik með liðinu?
„Þetta tekur nú alltaf einhvern tíma. Venjulegt ferli í svona málum tekur yfirleitt tvær til þrjár vikur. Það þarf bara að koma í ljós hvernig þetta gengur.“
Þannig þið eruð ekki að missa svefn yfir þessu máli?
„Nei, nei. Þeir mega alveg fara með þetta fyrir dómstól. Þeir eru með tapað mál í höndunum því þeir eru búnir að brjóta allan samninginn hans.“