Körfubolti

Mark Cuban að selja Dallas Mavericks

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Cuban er alltaf áberandi á hliðarlínunni hjá Dallas Mavericks.
Mark Cuban er alltaf áberandi á hliðarlínunni hjá Dallas Mavericks. Getty/Ron Jenkins

Mark Cuban er einn þekktasti og litríkasti eigandi félags í NBA-deildinni en nú virðist komið að tímamótum hjá honum.

Bandarískir fjölmiðlar segja að Cuban sé að selja Dallas Mavericks til Adelson fjölskyldunnar.

Samkvæmt fréttum Associated Press þá mun Cuban fá í kringum 3,5 milljarða Bandaríkjadala fyrir félagið eða um 482 milljarða íslenskra króna. Það er þó ekki alveg ljóst hvort hann selji allan sinn hlut eða bara meirihlutann.

Cuban verður sama hver niðurstaðan verður viðloðinn félagið áfram en hann fær að stýra öllum körfuboltatengdum málum þess áfram. Hann hefur verið áberandi á hliðarlínunni í leikjum Dallas og verður það því eflaust áfram.

Cuvan keypti Dallas 285 milljónir dollara árið 2000 og gæti því verið að græða tólffalt á þessari sölu 23 árum seinna.

Hann er nefnilega alls að græða um 3,2 milljarða Bandaríkjadala á þessum tveimur áratugum eða um 440 milljarða íslenskra króna.

Það mun taka sinn tíma fyrir söluferlið að ganga í gegn en aðrir eigendur félaga í NBA deildinni þurfa að samþykkja allt saman. Nýir eigendur þurfa að vera vottaðir til að fá að komast í hópinn.

Hinn 65 ára gamli Cuban hefur átt Mavericks síðan 2000.

Hann var því ekki búinn að eiga félagið nema í þrjú ár þegar Jón Arnór Stefánsson kom til Dallas árið 2003.

Miklar breytingar eru hjá Cuban þessa dagana því hann tilkynnti líka í gær að hann væri að hætta í sjónvarpsþættinum „Shark Tank“ á næsta ári eftir sextán ár þar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×