Þetta segir í tilkynningu frá lögreglunni á Facebook.
Þar segir að eftir skoðun víðsvegar um Reykjanes hafi komið í ljós að talsvert hefur fallið úr hlíðum fjalla á svæðinu. Varasamt geti verið að ganga um svæðið þar sem mikið af sprungum sé víðsvegar og nú þegar fer að snjóa megi búast við að fenni jafnvel yfir einhverjar sprungurnar.
Grjót á stærð við húsbíl hafi fallið
Komið hafi í ljós að á Djúpavatnsleið hefur fallið grjót sem er á stærð við húsbíl, toppurinn á Keili hafi eitthvað hreyfst til og við brúnina á Krýsuvíkurbjargi sé gömul sprunga að stækka mikið þessa dagana.
Búast megi við að fleiri sprungur séu á þessu svæði sem ekki er vitað um eins og staðan er.