Hann og kona hans, Bjarndís Helga Blöndal eignuðust andvana dóttur í lok janúar 2022. Viðar gaf dóttur sinni það loforð að hann myndi lifa lífi sínu fyrir hana.
Viðar er á meðal þeirra foreldra sem deila reynslusögu sinni í röð myndskeiða á vegum Gleym mér ei – styrktarfélags til stuðnings við foreldra sem missa barn á meðgöngu og í/eftir fæðingu.
Þokukennd minning
„Við vorum bara svona týpíska parið, vorum bæði búin með okkar nám og vorum búin að kaupa okkur íbúð þegar okkur langaði til að eignast barn. Við urðum ótrúlega glöð og virkilega spennt fyrir þessu nýja hlutverki sem við vorum að fara að taka við. Fyrir utan mjög mikla ógleði hjá Bjarndísi, þá gekk meðgangan ótrúlega vel og allar skoðanir komu vel út. Við vorum ekkert nema bara spennt fyrir þessu nýja hlutverki,“ segir Viðar.
Þann 30.janúar 2022 missti Bjarndís vatnið í kjölfarið og tók við hröð atburðarás. Parið er búsett í Hveragerði og var Bjarndís flutt til Reykjavíkur með sjúkrabíl, en Viðar keyrði á eftir þeim yfir heiðina.
„Ég átti ekki von á neinu nema bara góðu, af því að það var búið að hughreysta okkur um að það væri allt í lagi,“ rifjar Viðar upp.
„Ég labba inn í skoðunarherbergið, þar sem Bjarndís segir mér að það sé enginn hjartsláttur. Það sem gerist í kjölfarið er að það verður allt svolítið þokukennt. Ég held á töskunum, grýti þeim frá mér og fer í fangið á Bjarndísi. Ég brotna algjörlega niður. Næstu mínútur og klukkustundir eftir þetta eru rosalega þokukenndar. Ég man lítið eftir því, nema það að ég var rosalega stressaður yfir fæðingunni sjálfri.“
Hafði mikla þörf fyrir að tjá sig
Viðar rifjar upp að á þessum tímapunkti hafi verið komið inn með hvítan kassa frá Gleym mér ei. Hann opnaði kassann en lokaði honum strax aftur. Hann átti bágt með að trúa því hvað var að gerast.
„En svo kemur dóttir okkar, Brynja Rán í heiminn. Og ég fæ hana í fangið. Ég hugsa strax: ég myndi gera hvað sem er, bara til að fá að horfa í augun einu sinni í augun á henni. Heyra hana gráta. Bara einu sinni. Þarna gaf ég henni loforð, að ég myndi lifa mínu lífi fyrir hana,“ segir Viðar og bætir við á öðrum stað:
„Svo leyfir maður sér auðvitað líka að vera sorgmæddur, hugsa til hennar og gráta yfir henni. Eiga erfiða daga. Maður verður líka að leyfa sér það. Svo er líka hughreystandi að hugsa til hennar, hvað hún hefði viljað, hvað hefði gert hana stolta.“
Viðar nefnir kassann umrædda frá Gleym mér ei, sem innihélt meðal annars mót fyrir handa- og fótafar og bæklinga með ýmsum gagnlegum upplýsingum, þar á meðal reynslusögum einstaklinga sem gengið hafa í gegnum missi á meðgöngu. Þau fengu til sín ljósmyndara og tóku ótal ljósmyndir af Brynju. Hann segir þau hafa sótt mikið í kassann.
„Okkur fannst við vera rosalega ein, eins og það væri enginn sem skildi okkur. Ég hafði rosalega mikla þörf fyrir að tjá mig, tala við einhvern sem skildi mig. Það veitti ákveðna hugarró að lesa þessar reynslusögur.“
Við segir þau hjónin gífurlega þakklát fyrir kælivögguna, sem gerði þeim kleift að hafa litlu dóttur sína hjá sér í þrjá daga. Bæklingar á vegum Gleym mér ei komu sér einnig vel þegar kom að samskiptum við aðstandendur.
„Það var rosalega gott að fá fólk til að lesa þennan bækling, í stað þess að við værum að segja fólki hvað það ætti að segja eða ekki segja við okkur.“
Halda minningunni á lofti
Viðar segir að í raun hafi það tekið hvað einna mest á þegar heim var komið og búið var að jaðra litlu stúlkuna.
„Eftir jarðarförina tók þessi hversdagsleiki við. Það er skrítið að segja það, en það var erfiði tíminn. Aðrir héldu áfram, en við vorum föst í okkar sorg.“
Viðar og Bjarndís tóku þá ákvörðun að þiggja alla þá aðstoð og hjálp sem stóð þeim til boða. Þau hafa meðal annars leitað til stuðningshóps á vegum Landspítalans sem reynst þeim afskaplega vel.
„Við erum rosa mikið að reyna að halda í allt sem við getum til að halda minningunni hennar á lofti,“ segir Viðar.
„Við erum með myndir af henni uppi á hillu hjá okkur, við erum með handafarið hennar, við erum með sálmaskrána uppi. Við fórum til Parísar sumarið eftir að hún lést og létum teikna mynd af henni sem við hengdum upp á vegg.
Við erum mjög óhrædd við að tala um hana og tjá okkur um hana og minna fólk á hana af því að þetta er það eina sem við höfum, það eina sem við getum gripið í.“
Sorg og gleði á sama tíma
Í lok maí á þessu ári eignuðust Viðar og Bjarndís sitt annað barn, lítinn dreng.
„Á sama tíma og við erum þakklát og hamingjusöm með hann þá erum við samt enn að syrgja Brynju. Við erum svolítið að upplifa hana í gegnum hann. Við syrgjum allt sem hún fékk ekki að gera, eins og þegar hann byrjaði að brosa. Það fyllti hjartað af gleði en á sama tíma þá fundum við fyrir sorg að fá ekki að upplifa það með henni. Brynja verður alltaf partur af lífi okkar og okkur þykir ótrúlega vænt um það þegar fólk talar um hana og heldur minningunni hennar á lofti.
Það kemur ekki sá dagur að við hugsum ekki til hennar. Okkur þykir vænt um að fá að tala um hana og okkur þykir vænt um þegar aðrir tala um hana. Það gefur okkur hlýju í hjartað að hún hafi verið partur af lífi annarra, ekki bara okkar.“
Mikil hjálp í reynslusögum annarra
Í ár fagnar Gleym mér ei styrktarfélag tíu ára afmæli og hefur margt verið að gerast innan félagsins í tilefni þess. Félagið var stofnað árið 2013 af Önnu Lísu Björnsdóttur, Hrafnhildi Hafsteinsdóttur og Þórunni Pálsdóttur. Reynsla af missi á meðgöngu leiddi þær saman með það að markmiði að styðja fjölskyldur sem standa í þessum erfiðu sporum.
Á liðnu ári stóð félagið fyrir ráðstefnu um missi í barneignarferlinu. Ráðstefnan var ætluð heilbrigðisstarfsfólki og haldin í samstarfi við Háskóla Íslands, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala og Ljósmæðrafélag Íslands. Ráðstefnan gekk vonum framar og félagið uppskar mikið lof fyrir hana. Á árinu stóð félagið einnig fyrir þematengdum samverustundum sem tileinkaðar voru ákveðnum hópi foreldra sem misst hafa á meðgöngu eða fljótlega eftir fæðingu. Þar var fólki með svipaða reynslu boðið að koma saman og fá stuðning hvort frá öðru í öruggu umhverfi.
Árlegir viðburðir félagsins hafa einnig spilað stóran sess á árinu og má þar nefna Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem hefur verið ein helsta fjáröflun félagsins. Minningarstundin sem haldin er 15. október ár hvert var á sínum stað og hana sótti mikill fjöldi fólks alls staðar að. Svo hefur verið handavinnukvöld, pakkað saman í minningarkassa og fleira.
Myndskeiðin þar sem foreldrar og fagaðilar deila sögum sínum voru tekin upp í sumar en birt nú á dögunum.
Að sögn Ingunnar Sifjar Höskuldsdóttur formanns félagsins er tilgangur myndskeiðanna tvíþættur.
„Í fyrsta lagi hefur það sýnt sig að reynslusögur annarra foreldra hjálpa hvað mest þegar fólk stendur frammi fyrir því verkefni að læra að lifa með missi barns. Það gefur von og styrk að spegla sig í tilfinningum annarra og eignast fyrirmyndir í því sem framundan er. Þessar sögur hjálpa að auki oft foreldrum af fyrri kynslóðum sem fengu ekki að vinna úr missinum á sínum tíma. Í öðru lagi er mikilvægt að félagið vinni að því að auka rýmið í samfélaginu fyrir sorgina sem fylgir missi eins og þessum. Skilningur þeirra sem ekki hafa staðið í þessum sporum er mikilvægur og dýrmætur. Við trúum því að sorg sem fær það pláss sem hún þarf fái miklu frekar heilbrigða úrvinnslu.“
Ingunn segir Gleym mér ei hafa notið mikils stuðnings og velvildar alveg frá fyrsta degi.
„Það hefur alltaf gengið vel að fá fólkið okkar til þess að deila reynslu sinni og við gerð myndbandanna var engin undantekning þar á. Flestum foreldrum er afar mikilvægt að minning barna þeirra lifi og það að deila sögunum þeirra á þennan hátt er einn þáttur í því.“
Með aukinni vitundarvakningu hefur orðið mikill vöxtur í félaginu síðustu árin. Verkefnin eru fjölþætt og umfangið stórt. Til þess að geta stutt sem best við þeirra syrgjendur hefur Gleym mér ei ákveðið að fara af stað í styrktar herferð. Á styrktarsíðu Gleym mér ei er hægt að styrkja félagið.