Fótbolti

Willian tryggði Fulham dramatískan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Willian skoraði tvívegis af vítapunktinum í kvöld og tryggði Fulham dramatískan sigur.
Willian skoraði tvívegis af vítapunktinum í kvöld og tryggði Fulham dramatískan sigur. Alex Pantling/Getty Images

Willian reyndist hetja Fulham er liðið vann dramatískan 3-2 sigur gegn Wolves í lokaleik 13. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Heimamenn í Fulham tóku forystuna strax á sjöundu mínútu þegar Alex Iwobi kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Antonee Robinson áður en Brasilíumaðurinn Matheus Cunha jafnaði metin fyrir Úlfana stundarfjórðungi síðar og staðan var því 1-1 í hálfleik.

Willian kom heimamönnum yfir á ný með marki úr vítaspyrnu eftir rétt tæplega klukkutíma leik, en Hee-Chan Hwang jafnaði metin á ný fyrir gestina á 75. mínútu, einnig með marki úr vítaspyrnu.

Það var svo á lokamínútu venjulegs leiktíma að Harry Wilson féll innan vítateigs Úlfanna og eftir skoðun myndbandsdómara var vítaspyrna dæmd. Willian fór aftur á punktinn fyrir heimamenn og niðurstaðan varð sú sama og áður og dramatískur sigur Fulham því í hús.

Lokatölur urðu því 3-2, Fulham í vil og liðið situr nú í 14. sæti deildarinnar með 15 stig, líkt og Wolves sem situr í 12. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×