Erlent

Óska eftir upp­lýsingum um lungnabólgufaraldur meðal barna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Öndunarfærasjúkdómagreiningum hefur fjölgað í kjölfar Covid-19, mögulega sökum minna ónæmis vegna sóttvarnaaðgerða síðustu ára.
Öndunarfærasjúkdómagreiningum hefur fjölgað í kjölfar Covid-19, mögulega sökum minna ónæmis vegna sóttvarnaaðgerða síðustu ára. Getty/LightRocket(Zhang Peng

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur óskað eftir upplýsingum frá Kína um ógreindar lungnabólgusýkingar sem virðast hrjá börn í norðurhluta landsins.

Miðlar sem eru ekki undir stjórn ríkisins hafa greint frá því að sums staðar í Kína séu barnaspítalar yfirfullir af veikum börnum. Stjórnvöld hafa sagt aukinn fjölda inflúensulíkra veikinda mega rekja til afléttingu sóttvarnaaðgerða vegna Covid-19.

WHO hefur hvatt íbúa í Kína til að grípa til aðgerða til að draga úr smitum og sagðist í yfirlýsingu hafa óskað eftir nánari upplýsingum um ógreinda lungnabólgusýkinu í börnum í norðurhluta landsins.

Eftir að WHO sendi frá sér yfirlýsinguna birti ríkisfréttastofan Xinhua grein þar sem haft var eftir heilbrigðisyfirvöldum að náið væri fylgst með greiningu og umönnun barna með öndunarfærasjúkdóma.

WHO segir tilfellum inflúenskulíkra sjúkdóma hafa fjölgað mjög frá því í október, samanborið við sama tímabil síðust þrjú ár. Ekki sé hægt að segja til um ástæðurnar fyrr en nánari upplýsingar berast frá Kína.

Önnur ríki hafa séð fjölgun inflúensulíkra veikinda eftir heimsfaraldur kórónuveirunnar. Þannig segir prófessorinn Francois Balloux við University College of London Genetics Institute að líklega sé um að ræða afleiðingar minna ónæmis meðal barna vegna sóttvarnaaðgerða síðustu ára.

WHO segir hins vegar ekki liggja ljóst fyrir hvort tengsl séu á milli aukins fjölda öndunarsýkinga og lungnabólgufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×