Defoe var á sínum tíma í þrígang á mála hjá Tottenham, en eftir sína fyrstu veru hjá liðinu, á árunum 2004 til 2008, var hann seldur til Portsmouth þar sem hann lék um stutta stund áður en hann gekk aftur í raðir Lundúnaliðsins í janúar árið 2009.
Portsmouth greiddi 7,5 milljónir punda fyrir leikmanninn, sem á núvirði jafngildir 1,3 milljörðum íslenskra króna. Þrátt fyrir að fimmtán ár séu liðin frá félagsskiptunum gæti Tottenham verið að lenda í vandræðum vegna sölunnar.
Breski miðillinn The Times rýndi í málið og segist hafa sannanir fyrir því að Tottenham hafi notað umboðsmann í samningaviðræðunum sem hafði ekki tilskilin leyfi. Enska knattspyrnusambandið, FA, aðhafðist ekkert í málinu á sínum tíma, en segist nú geta hugsað sér að skoða ásakanirnar aftur ef ný sönnunargögn berast.
🚨 Tottenham could face a points deduction after an investigation found rules were broken in the transfer that sent Jermain Defoe to Portsmouth.
— Transfer News Live (@DeadlineDayLive) November 21, 2023
The FA has said it's prepared to review any new evidence in this case.
In the same year of Defoe's transfer, Luton were docked 10… pic.twitter.com/h6oytkn6ib
Komist enska knattspyrnusambandið að því að forráðamenn Tottenham séu sekir af ásökunum gæti félagið átt yfir höfði sér að stig verði dregin af liðinu í ensku úrvalsdeildinni. Nú fyrir aðeins örfáum dögum voru tíu stig dregin af Everton fyrir brot á fjárhagsreglum deildarinnar og sama ár og Defoe gekk í raðir Portsmouth voru tíu stig dregin af Luton fyrir að brjóta reglur um umboðsmenn.
Það er því ljóst að fordæmin eru til, en fyrir brot á slíkum reglum hafa háttsettir einstaklingar innan félagana einnig verið dæmdir í bann og félög verið dæmd í félagsskiptabann.