Verkalýðsfélag Grindavíkur og VR boða til samstöðufundar við nýjar höfuðstöðvar Landsbankans í miðbæ Reykjavíkur fimmtudaginn klukkan 14.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í tilkynningu á Facebook-síðu sinni að á fundinum vilji samtökin með „friðsælum og táknrænum hætti þrýsta á banka og lífeyrissjóði“ að koma betur til móts við Grindvíkinga. Þau þurfi nú að finna sér nýtt húsnæði með tilheyrandi kostnaði og bankarnir gefi lítið eftir.
„Það er lágmarks krafa okkar að vextir og verðbætur verði felldar niður tímabundið eða á meðan mesta óvissan ríkir,“ segir Ragnar Þór.
Hann segir að fólk sé hvatt til að mæta og sýna samstöðu í verki. Komist fólk ekki á fimmtudag segir í tilkynningu hans að stefnt sé að gera samstöðufundinn að daglegum viðburði þar til „bankarnir gangast við ábyrgð sinni og komi myndarlega til móts við hrikalega stöðu og óvissu sem blasir við íbúum Grindavíkur.“
Fyrir helgi skoruðu níu samtök launafólks á lánastofnanir að veita Grindvíkingum fullt greiðsluhlé næstu þrjá mánuði.
„Grindvíkingar takast nú á við einhverjar mestu náttúruhamfarir sem orðið hafa í byggð á Íslandi í hálfa öld. Fjögur þúsund manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og búa við mikla óvissu um framtíð sína og fjárhagslega afkomu. Ljóst er að gífurlegar skemmdir hafa orðið á eignum í bænum og óvíst hvort eða hvenær Grindvíkingar geta snúið aftur,“ sagði í tilkynningu samtakanna.