Innlent

„Það er svo skelfi­legt að horfa upp á vin­konu sína í þessum að­stæðum“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Kristjana Dögg er æskuvinkona Anítu og vill leggja sitt af mörkum til að létta undir með fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum.
Kristjana Dögg er æskuvinkona Anítu og vill leggja sitt af mörkum til að létta undir með fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum. Samsett

Aníta Björt Berkeley upplifði verstu martröð allra foreldra þann 4.nóvember síðastliðinn. Dóttir hennar lést, einungis sex vikna og sex daga gömul.

Aníta er búsett á Selfossi og er einstæð móðir en hún á eina aðra dóttur, Maliku Ivý sem er að verða tveggja ára.

„Í stöðu sem þessari er lítið sem maður getur gert og allt sem maður gerir og segir virðist of lítið. Ekkert getur fyllt í skarðið sem situr eftir í hjörtum fjölskyldunnar,“ segir Kristjana Dögg Baldursdóttir æskuvinkona Anítu en hún opnaði á dögunum styrktarreikning á nafni Anítu til að leggja fjölskyldunni lið á þessum erfiðu tímum.

Yngri dóttir Anítu lést degi áður en hún náði sjö vikna aldri. Fyrirhugað var að hún yrði skírð í dag, 18 nóvember.

Þungir tímar framundan

Þær Kristjana og Aníta hafa verið vinkonur frá barnsaldri og voru óléttar á sama tíma.

„Það er svo skelfilegt að horfa upp á vinkonu sína í þessum aðstæðum. Hún er náttúrulega bara í versta ástandi lífs síns núna,“ segir Kristjana.

„Sorgin sem situr eftir hjá aðstandendum er án efa meiri en hægt er að gera sér í hugarlund.“

Ljóst er að það eru þungir tímar framundan, bæði andlega og fjárhagslega fyrir þær mæðgur.

„Ég ákvað þess vegna að stofna styrktarreikning fyrir þær, bæði til að standa undir útfararkostnaðinum, og líka til að tryggja það að hún geti sótt þá aðstoð sem hún þarf, bæði fyrir sig og eldri dóttur sína,“ segir Kristjana og bætir við að það eigi enginn eigi þurfa að hafa fjárhagsáhyggjur eftir að hafa upplifað jafn hrikalegt áfall og það er að missa kornungt barn.

„Mín von er að Aníta og fjölskylda þurfi ekki að hafa fjárhagsáhyggjur ofan á þá miklu og ólýsanlegu sorg sem þau ganga í gegnum núna."

Þeir sem vilja leggja mæðgunum lið er bent á eftirfarandi styrktarreikning:

Reikningsnúmer: 0370-22-072677

Kennitala: 201197-2449




Fleiri fréttir

Sjá meira


×