Deildabikarinn í NBA-deildinni er leikinn á þriðjudags- og föstudagskvöldum í vetur en mótinu lýkur með úrslitaleik í Las Vegas í desember. Leikir í deildabikarnum telja bæði í þeirri keppni sem og í hefðbundnu deildakeppninni.
Denver Nuggets tapaði sínum fyrsta leik í riðlakeppni deildabikarsins þegar liðið mátti sætta sig við fimm stiga tap gegn New Orleans Pelicans. Tröllaþrenna frá Nikola Jokic dugði ekki til en Jókerinn skoraði 26 stig, tók 16 fráköst og gaf 18 stoðsendingar í 115-110 tapi. Zion Williamson var frábær í liði Pelicans sem er með tvo sigra í þremur leikjum.

Los Angeles Clippers vann í nótt sinn fyrsta leik síðan James Harden gekk til liðs við liðið. Harden skoraði þriggja stiga körfu og fékk víti að auki þegar aðeins sex sekúndur voru eftir af leiknum og tryggði sínum mönnum sigur. Hann skilaði 29 stigum, 9 fráköstum og 7 stoðsendingum í 106-100 sigri.
LeBron James átti sinn besta leik á tímabilinu til þessa þegar Los Angeles Lakers lagði Portland Trailblazers 107-95. James skoraði 35 stig í leiknum en Lakers hefur unnið alla þrjá leiki sína í deildabikarnum til þessa.

Þá skoraði Damien Lillard 27 stig þegar Milwaukee Bucks vann stórsigur á Charlotte Hornets 130-99. LaMelo Ball var stigahæstur á vellinum með 37 stig en alls skoruðu sjö leikmenn Bucks tíu stig eða meira í leiknum.
Úrslitin í nótt:
Washington Wizards - New York Knics 99-120
Charlotte Hornets - Milwaukee Bucks 99-130
San Antonio Spurs - Sacramento Kings 120-129
Toronto Raptors - Boston Celtics 105-108
Cleveland Cavaliers - Detroit Pistons 108-100
Atlanta Hawks - Philadelphia 76´ers 116-126
New Orleans Pelicans - Denver Nuggets 115-110
Chicago Bulls - Orlando Magic 97-103
Portland Trailblazers - Los Angeles Lakers 95-107
Utah Jazz - Phoenix Suns 128-131
Los Angeles Clippers - Houston Rockets 106-100