Íslenski boltinn

Máli Jóns Páls gegn Víkingi Ólafs­vík vísað frá

Atli Ísleifsson skrifar
Jón Páll Pálmason þegar hann var kynntur sem þjálfari Víkings Ólafsvík.
Jón Páll Pálmason þegar hann var kynntur sem þjálfari Víkings Ólafsvík. Víkingur Ólafsvík

Landsréttur hefur úrskurðað að vísa máli knattspyrnuþjálfarans Jóns Páls Pálmasonar gegn Knattspyrnudeild Víkings Ólafsvíkur frá héraðsdómi. Héraðsdómur hafði áður sýknað deildina af kröfu Jóns Páls, en hann hafði krafið félagið um 26 milljónir króna auk dráttarvaxta.

Þetta varð ljóst klukkan 14 þegar niðurstaða Landsréttar var kynnt.

Jón Páll taldi uppsögn sína árið 2020 ólögmæta en samkvæmt dómi héraðsdóms fékk hann full laun greidd frá því að vinnuframlag hans var afþakkað í júlí 2020, og fram til 1. október þegar uppsagnarákvæði í samningnum var nýtt.

Niðurstaða héraðsdóms var því sú að Jón Páll þyrfti að greiða Víkingi Ólafsvík 1,5 milljón króna í málskostnað.

Gera má ráð fyrir fyrir að úrskurðurinn í málinu verði birtur á vef Landsréttar um klukkan 15:30.

Krafa Jóns Páls nam tæplega 26 milljónum króna þar sem hann taldi sig eiga inni 26-föld mánaðarlaun upp á 700 þúsund krónur, og jafnmargar greiðslur vegna íbúðarkostnaðar, 80 þúsund krónur á mánuði, eldsneytis 30 þúsund krónur á mánuði og matarúttektar, 30 þúsund krónur á mánuði.

Við það bættist krafa um bætur fyrir röskun á stöðu og högum, upp á þrjár milljónir króna, og miskabætur upp á eina milljón króna þar sem Jón Páll taldi að á hann hefðu verið bornar alvarlegar ávirðingar sem hefðu verið meiðandi og til þess fallnar að valda álitshnekki, eins og segir í dómi héraðsdóms.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×