Íslenski boltinn

Ryder býður stuðnings­mönnum KR í bjór á Rauða ljóninu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gregg Ryder var ráðinn þjálfari KR í síðasta mánuði.
Gregg Ryder var ráðinn þjálfari KR í síðasta mánuði. stöð 2 sport

Gregg Ryder, nýráðinn þjálfari KR, ætlar greinilega að vinna stuðningsmenn félagsins strax á sitt band.

Ryder hefur nefnilega boðið stuðningsmönnum KR upp á bjór eða tvo á Rauða ljóninu 16. desember næstkomandi. Hann skrifaði færslu þess efnis á stuðningsmannasíðu KR á Facebook, Já, ég styð KR! í dag.

Ryder byrjar á því að þakka fyrir góðar móttökur á Meistaravöllum og segist vera svo stoltur að vera þjálfari KR.

„Áður en ég varð fótboltaþjálfari var ég, og er enn, fótboltaaðdáandi. Ég veit að fótboltafélag er ekkert án stuðningsmannanna. Við þurfum að vera með lið sem þið getið samsamað ykkur við, leikmenn og starfslið sem ykkur finnst þið tengjast. Við erum að leggja af stað í vegferð og við þurfum öll ykkar með. Saman verðum við óstöðvandi,“ skrifaði Ryder sem býður stuðningsmönnunum svo á Rauða ljónið á aðventunni. Og hann segist hlakka til.

Ryder var kynntur sem nýr þjálfari KR 28. október. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið. Ryder tekur við KR af Rúnari Kristinssyni sem var ráðinn þjálfari Fram á dögunum.

Hinn 35 ára gamli Ryder hefur starfað hjá ÍBV, Þrótti Reykjavík og Þór Akureyri hér á landi. Undanfarin ár hefur hann starfað fyrir HB Köge í Danmörku, þar hefur hann gegnt hlutverki U-19 ára þjálfara sem og aðstoðarþjálfari aðalliðs félagsins sem spilar í dönsku B-deildinni.


Tengdar fréttir

„Auð­vitað er pressa, eftir­vænting og spenna yfir því hver tekur við þessu starfi“

Gregg Ryder var í fyrradag ráðinn þjálfari karlaliðs KR í knattspyrnu. Hann skrifaði undir þriggja ára samning og er Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar, ánægður með þá lendingu sem málið fékk. Hann segir KR aldrei hafa verið undir pressu að ráða inn nýjan þjálfara eftir að ákveðið var að framlengja ekki við Rúnar Kristnsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×